Hafa spilað á 900 tónleikum í útlöndum

18.08.2014 - 21:31
Mynd með færslu
Íslenskar hljómsveitir hafa spilað á allt að 900 tónleikum utan landsteinanna frá áramótum. Útflutningssjóður íslenskrar tónlistar hefur kostað kynningarstarf fyrir tugi milljóna króna.

Mikill vöxtur hefur verið í tónlistarútflutningi, sérstaklega síðustu tvö ár. 

Í fyrra töldum við rúmlega 1400 tónleika, í ár er það komið upp í 880 sem er rosalega mikið. Það er reyndar svolítið svipað og í fyrra en árið á undan var það mun minna. Þannig að það er rosalega mikil aukning 2013 og hún virðist vera að halda í sér 2014,“ segir Anna Ásthildur Thorsteinsson, verkefnastjóri hjá Útón, útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar. 

Þær hljómsveitir sem hafa verið hvað iðnastar við kolann á þessu ári eru Samaris, Skálmöld og Ólafur Arnalds. Framundan eru líka margir fyrirhugaðir tónleikar, meðal annars hjá Sólstöfum og Gusgus.

Anna segir margt ýta undir aukna spilun íslenskrar tónlistar í útlöndum. Ég giska að það sem gæti hafa haft áhrif er Útflutningssjóður Íslenskrar tónlistar sem var settur á laggirnar 2013,“ segir Anna. Tuttugu milljónum var veitt í sjóðinn í ár, sama upphæð og stofnárið 2013. Sjóðurinn aðstoðar hljómsveitirnar við að greiða flug og flutningskostnað á hljóðfærum. 

Ég held að það sé bara ómetanlegt fyrir íslenskar hljómsveitir að hafa aðgang að þessu," segir Anna og segist sannfærð um að hagræn áhrif skili sér aftur til hagkerfisins meðal annars með aukinni komu ferðamanna til landsins sem hafi áhuga á tónlist. Þetta er bara rosalega mikilvægt fyrir hagkerfið og gaman að hafa eitthvað svona lifandi og skapandi í gangi.