Hafa atvinnu af að stela úr búðum

28.01.2016 - 13:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hópur fólks hefur atvinnu af því að stela úr búðum segir Þórainn Ævarsson framkvæmdastjóri IKEA. Vörurýrnun vegna þjófnaðar í IKEA nemur einni til tveimur milljónum króna á mánuði. Þórarinn segir að þjófnaður sé ætíð kærður til lögreglu.

Fyrirtæki geta neitað að eiga viðskipti
Þórarinn sagði í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 að fólk áttaði sig ekki oft á að á sama hátt að réttur viðskiptavina sé mikill þá eigi fyrirtæki líka sinn rétt. „Fyrirtæki þarf ekki að versla við viðskiptavin ef það vill það ekki. Það er enginn sem skyldar það til þess. Þetta er svipað og með flugdónann hjá Icelandair. Þeir gátu bara útilokað hann. Þetta eru bara mínir flugdónar sem eru að stela frá mér og ég útiloka þá. Ef ég sé til þeirra þá er þeim einfaldlega vísað út."

Viðskiptavinurinn borgar brúsann á endanum
Þórainn segir þjófnaðinn koma í bylgjum en meira hafi verið um hann síðustu tvo mánuði en oft áður. „Stundum líða mánuðir á milli þar sem ekkert gerist. Við sjáum það að menn eru farnir að stunda þetta sem vinnu. Þeir stela smáhlutum sem eru tiltölulega dýrir eins og díóður og ljós, hlutum sem kosta kannski 6-8 þúsund krónur. Þetta eru litlir hlutir sem komast í vasa. Svo er þetta boðið til sölu á netinu, kannski í skiptum fyrir eiturlyf. Þannig að þetta er orðin vinna" segir Þórarinn. Þjófarnir fari í verslanir og verslunarmiðstöðvar eins og IKEA, Smáralind og Kringluna og steli upp í pantanir og fái  tekjur fyrir það.  „Þetta er ekki lengur einhver smá nytjastuldur sem fólk bráðvantar og er að stytta sér leið í lífinu. Þarna eru menn komnir út í bisness og þetta hefur áhrif á alla aðra viðskiptavini. Því á endanum - og það er það sem fólk áttar sig ekki almennilega á - er að viðskiptavinurinn borgar þetta allt á endanum".

Mynd með færslu
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV