Hæstiréttur húðskammar Matvælastofnun

18.05.2017 - 16:12
Selfoss Matvælastofnun MAST
 Mynd: Jónsson Jónsson  -  Jóhannes Jóhannes
Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að Matvælastofnun væri skaðabótaskylt vegna fréttar sem birtist á vef stofnunarinnar um að ekkert nautakjöt væri í nautabökum frá matvinnslufyrirtækinu Gæðakokkum. Hæstiréttur húðskammar Matvælastofnun fyrir framgöngu sína í málinu, meðferð þess hafi verið ólögmæt og hafi auk þess verið slíkum annmörkum háð af hálfu starfsmanna MAST að skilyrði um saknæmi hafi verið fullnægt. Matvælastofnun beri því ábyrgð á tjóni fyrirtækisins.

Vefur Matvælastofnunar birti frétt þess efnis í febrúar fyrir fjórum árum að ekkert nautakjöt væri nautaböku frá Gæðakokkum í Borgarnesi.  

Fyrirtækið var síðan kært til lögreglu og loks ákært fyrir vörusvik en sýknað í Héraðsdómi Vesturlands.  Dómurinn taldi að rannsókn málsins hefði verið ábótavant, aðeins eitt sýni hefði verið tekið og þessi mistök ekki gerð af ásetningi.

Málið vakti mikla athygli á sínum tíma en tilkynning stofnunarinnar kom um svipað leyti og upplýst var í Evrópu að fyrirtækið Findus hefði notað hrossakjöt í stað nautakjöts.

Fyrirtækið stefndi í framhaldinu Matvælastofnun og krafðist þess að hún yrði dæmd skaðabótaskyld vegna þess tjóns sem fyrirtækið hefði orðið fyrir. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á þá kröfu,  og nú hefur Hæstiréttur staðfest hana. 

Hæstiréttur segir í dómi sínum að Matvælastofnun hafi borið að ganga úr skugga og útiloka að þarna hefðu verið gerð mistök eða þetta væri óhappatilvik. Stofnunin hefði mátt vera ljóst hvaða afleiðingar það myndi hafa fyrir fyrirtækið að birta áðurnefnda tilkynningu.  Þá hefði ekkert komið fram um að fyrirtækið hefði áður átt sér sögu um eitthvað af þessu tagi varðandi framleiðslu sína.

Forstjóri Matvælastofnunar hefur sagt að ef Hæstiréttur myndi staðfesta skaðabótaskyldu stofnunarinnar yrði það mjög alvarlegt mál. „Við vorum mjög ósátt við þetta, og áfrýjuðum til Hæstaréttar því við teljum ljóst að þarna höfðum við skyldu samkvæmt löggjöf. Við eigum að sjá til þess að rannsóknir vegna merkinga séu framkvæmdar. Við vonum að það sé hægt að snúa honum [dómnum] við.“