Hæstiréttur dæmdur brotlegur í sjötta sinn

04.05.2017 - 09:55
epa04590334 A general view of the entrance during the hearing in the case Perincek vs Switzerland, at the European Court of Human Rights (ECHR) in Strasbourg, France, 28 January 2015. The European Court of Human Rights holds a Grand Chamber Hearing in the
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg.  Mynd: EPA  -  KEYSTONE
Meirihluti Mannréttindadómstóls Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í morgun að dómur Hæstaréttar hefði brotið gegn tjáningarfrelsi Reynis Traustasonar, Inga Freys Vilhjálmssonar og Jóns Trausta Reynissonar með dómi í Sigurplastmálinu svokallaða. Ummæli þeirra voru dæmd ómerk og þeir dæmdir til að greiða bætur og málskostnað. Þetta er í sjötta sinn sem dómstóllinn dæmir að íslenska ríkið hafi brotið gegn tjáningarfrelsi blaðamanna.

Málið snerist að miklu leyti um hugtakanotkun en deilt var um það hvort tiltekinn einstaklingur hafi verið til skoðunar eða til rannsóknar hjá lögreglu þegar DV birti fréttir um málið á sínum tíma. Sakfellt var fyrir tvær staðhæfingar og voru þær ómerktar.

Reynir, sem var ritstjóri DV á sínum tíma, sagði í samtali við Morgunútvarpið í morgun að málið hefði ætíð verið óskiljanlegt. „Þetta mál var gjörsamlega fáránlegt frá upphafi en fór í gegnum tvö dómstig og við vorum dæmd.  Þetta voru himinháar bætur og mikið högg á fjölmiðilinn að þurfa að leggja þetta út eða ekki bæturnar per-sei en kostnaðurinn mikill . Það er kostnaður upp á nokkrar milljónir að verjast í svona máli. En fyrir mig persónulega þá er þetta eina málið sem ég hef verið dæmdur fyrir.  Ég hef verið lögsóttur 11 sinnum á tímabili fyrir meiðyrði og allskonar og allir töpuðu, nema þetta eina mál féll. Nú eru komin þau tíðindi að við erum sýknaðir.“

Staðhæfingarnar, sem voru ómerktar, voru annars vegar „Lögreglan rannsakar lektor“ og „Lektor í viðskiptafræði flæktur í rannsókn lögreglu“ . Málið snerist því að mestu um hvort rétt hefði verið að segja til skoðunar hjá lögreglu eða til rannsóknar.

„Sem enginn skilur, það er ekki til neitt sem heitir að lögregla sé að skoða.  Ég veit ekki hvaða skilgreining það er. Það er bara rannsókn hafin og henni lýkur kannski mjög snemma eða kannski mjög seint. Ég skildi aldrei þennan dóm og hvað þá að hæstiréttur skyldi taka undir þetta en nú er bara staðfest að þetta er líklega fjórði eða fimmti dómurinn fyrir svona aðfarir gegn blaðamönnum og ég held að þetta sé tímapunkturinn þar sem að menn munu fara aðeins lengra með þetta að herja á dómstólana og kalla eftir ábyrgð því það hefur verið kallað eftir ábyrgð aftur og aftur og ekkert gerst…svo hefur verið haldið áfram að dæma blaðamenn fyrir einhverjar fáránlegar sakir,“ segir Reynir. 

Rétt er að taka fram að þetta er sjötti dómurinn sem fallið hefur gegn íslenska ríkinu. Reynir og aðrir aðilar máls funda klukkan 10 og ákveða framhaldið. „Það verður ekkert gefið eftir í þessu máli. Það verður að knýja menn til ábyrgðar en við munum sækja á íslenska ríkið um bætur og að tryggja að þetta haldi ekki áfram, þessi ósvífni. Þetta er ekki siðuðuð samfélagi bjóðandi að menn skuli vera dæmdir trekk í trekk fyrir raunverulega engar sakir.“

Reynir segir að dómur hæstaréttar hafi verið þungbær fyrir sig persónulega. „Ef maður talar persónulega þá þýðir þetta það að menn hafa verið að úthrópa mann sem mannorðsmorðingja og það hefur verið þungbært í þeim skilningi að vera dæmdur. Það þýðir það að mér finnst að íslenska ríkið þurfi að gefa mér einhvers konar klapp og segja að minnsta kosti að þetta sé leitt eða að ég geti verið nokkuð viss um það að menn haldi ekki áfram að dæma á þessum forsendum. Þið takið eftir því að þetta er einn af mjög mörgum dómum í röð sem allir falla á íslenska ríkið og það hefur enginn axlað ábyrgð fyrir þetta. Enginn.“

Mynd með færslu
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV