Hækkun sjávar tvöfalt meiri en áður var haldið

26.01.2016 - 04:44
Mynd með færslu
 Mynd: Aldas Kirvaitis  -  flickr.com
Hækkun yfirborðs sjávar vegna hlýnunar og þenslu hans er vanmetið að sögn þýskra vísindamanna. Þeir segja að hækkunin verði jafnvel tvöföld á við það sem áður var talið.

Niðurstöður Þjóðverjanna gefur að líta í bandaríska vísindaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences. Hækkun yfirborðs sjávar stafar einkum af tvennu, bráðnun jökla og þenslu vatns við aukinn hita. Þar til nú töldu vísindamenn að yfirborðshækkunin væri um 0,7 til einn millimeter á ári vegna þenslunnar. Miðað við gögn þýsku vísindamannanna er hækkunin nær 1,4 millimetrum á ári. Ef báðir þættir eru lagðir saman, þensla vegna hita og bráðnun jökla, er hækkun yfirborðs um 2,74 millimetrar á ári.

Niðurstöðurnar sýndu að hækkunin væri misjöfn eftir svæðum. Í kringum Filippseyjar var hún fimm sinnum meiri en á heimsvísu, en við vesturströnd Bandaríkjanna, þar sem hitastig sjávar hefur lítið breyst, var hún nánast engin.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV