Gunnar Hrafn styður ekki áfengisfrumvarpið

03.03.2017 - 07:56
Frá þingsetningu 6. desember 2016.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata, segist ekki styðja áfengisfrumvarpið óbreytt. Hann snýr aftur á þing í næstu viku eftir veikindaleyfi en varamaður hans, Viktor Orri Valgarðsson, var einn flutningsmanna frumvarpsins um áfengi í verslanir

„Ég get það því miður ekki að óbreyttu. Ástæðan fyrir að það fer svona mikið fyrir í þessu í umræðunni, skiljanlega, er að  þetta eru klassísk pólitísk rök þar sem takast á frelsisrök og lýðheilsusjónarmið,“ sagði Gunnar Hrafn í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Píratar eru meðflutningsmenn að frumvarpinu en hann segir að skiptar skoðanir séu á því innan flokksins. Hann segist hlynntur því að afnema ríkiseinokun á áfengissölu og að það þurfi að uppfæra lögin sem séu ákveðin tímaskekkja.

 „Mér finnst þetta vera dálítið langt og mikið skref í einu án þess að á móti komi til dæmis stóraukið framlag til forvarna sem væri þá einhvers konar málamiðlun,“ segir hann. 

„Þannig að Í eðli sínu finnst mér mjög eðlilegt að endurskoða þessi lög en þetta er sérstök vara og mér finnst ekki alveg tekið tillit til þess í frumvarpinu hvað þetta er sterkt vímuefni og örlagavaldur í lífi mjög margra Íslendinga og fjölskyldna.“

Hann segir að Píratar styðji frelsi einstaklinga og að þeir vilji ekki boð og bönn. Hann skilji bæði sjónarmið að vissu leyti. Skiptar skoðanir séu á þessu innan flokksins sem og innan flestra annarra flokka.
„Við höfum talað mjög opinskátt um það að þarna takast náttúrulega á þessi frelsisprinsipp og síðan lýðheilsuprinsipp og það er bara einstaklingsbundið hvernig menn vega og meta útfærsluna og hvað skiptir í raun og veru máli í  pólitík þegar upp er staðið. Þetta er svona grundvallarspurning. Hvort það sé frelsi einstaklingsins til að gera það sem hann vill eða hvort að við þurfum að hugsa meira eins og ein heild og passa upp á hvert annað. Þetta er fín lína.“

 

Mynd með færslu
Viktoría Hermannsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi