Gunna Dís og Sóli Hólm taka við Útsvari

11.08.2017 - 16:45
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd  -  RÚV
Guðrún Dís Emilsdóttir og Sólmundur Hólm verða þáttastjórnendur í spurningaþættinum Útsvari þegar þátturinn hefur göngu sína á ný 15. september. Gunna Dís og Sóli Hólm, sem unnu meðal annars saman í Virkum morgnum á Rás 2, leysa þau Sigmar Guðmundsson og Þóru Arnórsdóttur af hólmi.

Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps, segir að margir hafi komið til greina en niðurstaðan hafi verið sú að Sóli og Gunna Dís væru hárrétta fólkið í verkefnið. „Þau veru verðugir arftakar Simma og Þóru.

„Mér líst ótrúlega vel á þetta. Ég er búinn að bíða mjög þolinmóður eftir rétta tækifærinu í sjónvarpi,“ segir Sóli. Nokkuð er síðan þetta var ákveðið. „Ég er búinn að þurfa að halda kjafta í allt sumar um þetta, ég hef bara getað sagt allra nánustu frá þessu.“ Hann segir það mikinn heiður að fá að stökkva inn í jafn stóran þátt og Útsvar sem hafi átt mikilli velgengni að fagna. „Við Gunna nálgumst þetta verkefni fyrst og fremst af viðringu fyrir þeim sterka grunni sem Útsvarið byggir á.“

Gunna Dís segist spennt fyrir að taka til starfa í Útsvari. „Það er gaman að fá að taka við þessu kefli af Þóru og Simma. Þetta er skemmtilegur og vinsæll þáttur sem ég hef að sjálfsögðu fylgst með í gegnum árin. Ég vona bara að landsmenn gefi okkur Sóla séns.“

Gunna Dís fagnar því að vinna aftur með Sóla. „Hann var þriðja hjólið í Virkum morgun þannig að við þekkjumst út og inn. Það er frábært að fara í þetta prógramm með honum. Það verður sérstaklega skemmtilegt.

Einhverjar breytingar

Það eru ekki aðeins ný andlit þáttastjórnenda sem blasa við þegar þátturinn hefur göngu sína á ný í haust. Það verða líka gerða einhverjar breytingar á þættinum. Gunna Dís segir þó að passað verði upp á að halda í það sem hefur virkað. Sóli tekur undir það. „Fólk mun taka eftir breytingum en ég held að það verði ekki þannig að það verði allt vitlaust," segir Sóli og bætir við hlæjandi. „Ég vona ekki.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Útsvar