Gullvinnsla undirbúin við Jan Mayen

26.04.2014 - 21:00
Mynd með færslu
Mjög verðmæta málma, olíu og gas, er að finna á hafsbotninum norðan Íslands. Verið er að undirbúa vinnslu á gulli á hafsbotninum milli Jan Mayen og Svalbarða. Talið er að verðmæti þess nemi tugþúsundum milljarða króna.

Eldfjöll og jarðhitasvæði eru á hafsbotninum  norðan Íslands, milli Jan Mayen og Svalbarða. Fljótandi gas streymir þar út sem svartur reykur ásamt heitu vatni. Forrannsóknir sýna að þar er að finna miklar námur gulls, nikkel, kopars og kobolts en jafnframt blý, sink og  silfur, að mati sérfræðinga.

Hluti svæðisins er innan norskrar lögsögu og norsk námufyrirtæki taka nú þátt í alþjóðlegri áætlun um námuvinnslu á svæðinu, sem eru á 3.500 metra dýpi. Málmarnir eru sagðir aðgengilegir en gert er ráð fyrir að það takið 10 til 15 ára að búa í haginn fyrir vinnslu þeirra. Sérfræðingar við Jarðfræði- og bergtæknistofnun Noregs áætla að hægt sé að ná þarna upp af hafsbotninum málmi að verðmæti um 1000 milljarða norskra króna um jafnvirði 19 þúsund milljarða íslenskra króna. Talsmenn verkefnisins segja að verði farið dýpra niður í botninn mætti margfalda verðmætin sem menn áætla að gætu verið meiri en allur sá auður sem menn hafa safnað með olíuvinnslu Norðmanna.