„Grundvallarmunur“

09.01.2017 - 22:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Óttar Proppé formaður Bjartrar framtíðar segir grundvallar munur á þeirri stöðu sem nú sé uppi og þeirri sem var síðastliðið vor þegar hann gagnrýndi forsætisráðherra  á Twitter-síðu sinni fyrir að halda upplýsingum um aflandsfélag sem tengdist sér leyndu. Mikil áhersla sé lögð á betra verklag og skýrari umgjörð í stjórnarmynduninni sem nú eigi  sér stað.

 

Þann 3. apríl síðastliðið vor birti Óttarr Proppé formaður Bjartrar framtíðar færslu á Twitter síðu sinni þar sem  hann segir að þáverandi forsætisráðherra , Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sé tengdur aflandsfélagi og hafi haldið því leyndu. Orðspor Íslands sé undir. Það sé óhugdandi að forsætisráðherra sé stætt. Þessi færsla hefur verið rifjuð upp á samskiptamiðlum síðustu daga og sett í samhengi við stjórnarmyndunina sem nú á sér stað og  þá gagnrýni sem dunið hefur á Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra fyrir að hafa ekki birt skýrslu um aflandsfélögin fyrir kosningar.

„Mér finnst nú vera ákveðinn grundvallar munur því að eftir að upplýsingarnar komu fram þá gerði Bjarni sitt besta til að útskýra sitt mál og síðan var kosið og við erum að vinna úr niðurstöðum kosninganna. Mér finnst það vera ákveðin skylda okkar sem að höfum verið kosin til þings að koma okkur saman um að mynda starfhæfa ríkisstjórn og núna þegar að við erum farin að banka í lengstu stjórnarkreppu í Íslandssögunni þá held ég að það sé ábyrgðarhluti að klára það verk.“
 

 

Mynd með færslu
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV