Grunaður um tvö kynferðisbrot gegn sömu konu

22.02.2016 - 11:47
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason  -  RÚV
Karlmaðurinn, sem lögreglan leitar nú að, er grunaður um að hafa framið alvarlegt kynferðisbrot gegn sömu konunni með viku millibili. Hans hefur verið leitað frá því í síðustu viku. Fjölmennt lið lögreglu var kallað út að Móabarði í Hafnarfirði í gærkvöldi vegna málsins. Lögreglan veitir litlar upplýsingar um málið og segir rannsókn málsins á viðkvæmu stigi.

Maðurinn, er um 180 sm á hæð og fölleitur, var dökkklæddur og með svarta húfu og svarta hanska. Hann er talinn vera á aldrinum 35-45 ára. Fyrri árásin átti sér stað mánudagsmorguninn 15. febrúar um klukkan átta. Tveimur dögum síðar lýsti lögreglan eftir fólki sem hefðu orðið mannsins varir.

Síðari árásin var í gær, 21. febrúar, um  klukkan 20. Árásin var mjög alvarleg að sögn Árna Þórs Sigmundssonar, yfirmanns ofbeldis- og kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.  Lögreglan var kölluð á staðinn en árásarmaðurinn var þá farinn. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur lögreglan litlar upplýsingar um hver hann er eða aðrar vísbenginar sem leitt gætu til handtöku hans. 

Mbl.is greindi frá því í síðustu viku að maðurinn hefði villt á sér heimildir til að komast inn á heimili konunnar. Þá greinir visir.is frá því maðurinn hafi þóst vera frá orkufyrirtæki og sagst þurfa að lesa af mælum. Konan hafi verið ein heima með ungabarn þegar árásin átti sér stað.

Biður lögreglan þá sem geta veitt upplýsingar um manninn og ferðir hans um að hafa samband við lögreglu í síma 444 1000, en upplýsingum má einnig koma á framfæri á netfangið abending@lrh.iseða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.