Grikkir hóta að stöðva allar ESB-ákvarðanir

epa05178293 Refugees and migrants wait as they try to find a place on an already full train headed for Serbia, near the city of Gevgelija, The Former Yugoslav Republic of Macedonia, on 24 February 2016. Refugees and migrants from Iraq and Syria continue
 Mynd: EPA
Grikkir munu beita neitunarvaldi gegn öllum pólitískum ákvörðunum Evrópusambandsins þar til umsamin skipting flóttafólks niður á aðildarríkin verður að veruleika. Þetta sagði Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, í ræðu á gríska þinginu í gær. Grikkir sætti sig ekki við að sum aðildarríki taki ekki á móti einum einasta flóttamanni og byggi að auki víggirðingar til að halda þeim úti.

Með þessum orðum vísar Tsipras fyrst og fremst til Balkanríkja sem á miðvikudag boðuðu nánara samstarf sín á milli til að halda flóttafólki utan sinna landamæra. Sú tilkynning var afrakstur sérstakrar ráðstefnu fulltrúa Austurríkis og níu Balkan- og Austur-Evrópulanda um málefni flóttafólks. Grikkjum var ekki boðið að taka þátt í þeirri ráðstefnu, en þeim er borið á brýn að slá slöku við vörslu ytri landamæra Schengen-svæðisins.

Nágrannar Grikkja í norðri hafa þegar hert mjög landamæraeftirlit og þrengt reglur um hverjir fá að fara í gegn. Þannig hafa Makedónar ákveðið að aðeins Sýrlendingar og Írakar teljist þurfa á alþjóðlegri vernd að halda, aðrir fá ekki inngöngu. Þetta hefur þegar leitt til þess að þúsundir afganskra flóttamanna, sem komust til Grikklands og hugðust halda norður á bóginn, komast nú hvergi.

Tsipras ræddi stöðuna sem upp er komin við Angelu Merkel, Þýskalandskanslara. Hann segir Grikki ekki líða það, að landinu verði breytt í geymslusvæði fyrir fólk - allir verði að axla sína ábyrgð á vandanum, ekki Grikkir einir.