Greiðsluþátttaka sjúklinga mun aukast

11.09.2014 - 12:39
Mynd með færslu
Forstjóri Krabbameinsfélagsins segist hafa vonað að sjúklingum yrði hlíft í fjárlagafrumvarpinu, greiðsluþátttaka þeirra í lyfjum væri nú þegar of mikil. Kostnaðarhlutdeild almennings í lyfjum mun aukast ef fjárlagafrumvarpið verður samþykkt óbreytt.

Gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu að viðmiðunarfjárhæð vegna almennra lyfja verði hækkuð og S-merkt lyf, sem tekin eru utan sjúkrahúsa, felld undir almenna greiðsluþátttöku. Það verður gert 1. janúar næstkomandi. Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu kemur fram að tillagan styðji upphaflegt markmið nýja greiðsluþátttökukerfisins um að mismuna ekki sjúklingum í kostnaði eftir sjúkdómum og tegundum lyfja.  

345 milljóna sparnaður ríkis á kostnað sjúklinga

Útgjöld ríkisins vegna S-merktra og leyfisskyldra lyfja eru rúmir 6,4 milljarðar á ári. Gert er ráð fyrir að S-merktu lyfin sem fella á undir greiðsluþátttöku skili ríkissjóði um 145 milljónum og hækkun á viðmiðunarfjárhæð almennra lyfja um 200 milljónum. Samtals sparar ríkissjóður 345 milljónir sem færast yfir til sjúklinga.

Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélagsins, segir að krabbameinssjúklingar greiði nú þegar stóran hluta af lyfjunum sínum. „Í fyrra, um þetta leyti, lögðum við fram vandaða skýrslu um greiðsluþátttöku krabbameinsjsúklinga eða í heilbrigðisþjónustu almennt og bentum á að greiðsluþátttakan er orðin of mikil,“ segir Ragnheiður. 

Sjúklingar greiða á aðra milljón 

Dæmi eru um að sjúklingar greiði hátt á aðra milljón fyrir meðferð og tengd útgjöld. „Við höfðum eiginlega vænst þess að þess sæist stað í þessu fjárlagafrumvarpi að menn hlífðu sjúklingum meira en nú virðist blasa við,“ segir Ragnheiður.

Ragnheiður segir að S-merktu lyfin séu gríðarlega dýr. „S merktu lyfin eru mjög mikið gefin inn á sjúkrahúsum og svo okkar veikustu eða veikum sjúklingum utan sjúkrahúsa og nú verða sem sagt þeir sem nota S merkt lyf utan sjúkrahúsa að taka þátt í greiðslu fyrir þessi dýru lyf.“