Greiðslur til bænda aukast um milljarð á ári

26.01.2016 - 20:18
Mynd með færslu
Þeir gripir sem haldnir voru í húsi komust ekki í mjölið. Myndin er úr safni.  Mynd: RÚV
Kostnaður skattgreiðenda vegna nýs búvörusamnings sem nú er í burðarliðnum gæti aukist um hátt í einn milljarð króna á ári. Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra í Kastljósi í kvöld. Samningarnir feli í sér umtalsverðar breytingar sem miði að því að breyta stuðningi við landbúnað og afnema kvóta í mjólkuriðnaði.

Eins og komið hefur fram í fréttum Sjónvarps undanfarna daga standa nú yfir viðræður um nýjan búvörusamning sem felur í sér róttækar breytingar á núverandi kerfi. Kvótakerfi sem við lýði hefur verið í tæp þrjátíu ár, verði þannig afnumið. Kvótakaup hafa kostað mjólkurbændur milljarða tugi frá því kvótinn var settur á. Stór hluti ríkisstuðnings við þá bændur hafi því runnið til þeirra.

Að sögn Sigurðar Inga er gert ráð fyrir því að útgjöld ríkisins muni hækka talsvert í nýjum samningi. Greiðslurnar voru 12,7 milljarðar króna á síðasta ári. Fyrstu þrjú ár samningsins er gert ráð fyrir því að samningarnir hækki um 900 milljónir króna á ári. Árshækkunin verði 700 milljónir króna á ári út samningstímann eftir það. Kostnaður við breytingar kerfisins og aðstoð við bændur vegna reglugerðarbreytinga og framkvæmdir þess vegna, skýri þessa hækkun að mestu.

Rætt var við Sigurð Inga um þessar breytingar og gagnrýni á þær í Kastljósi í kvöld.

Mynd með færslu
Helgi Seljan
Fréttastofa RÚV
Kastljós