Greiðslubyrði rúmlega 20 þúsund krónum hærri

04.01.2016 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Breytilegir vextir á óverðtryggðum húsnæðislánum stærstu bankanna þriggja hafa hækkað um rúmt eitt prósentustig síðastliðið ár. Greiðslubyrði af tuttugu og fimm milljóna króna láni til þrjátíu ára hefur hækkað um rúmlega tuttugu þúsund krónur á mánuði.

Stóru bankarnir þrír, Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki, hafa hækkað vexti á óverðtryggðum húsnæðislánum úr um sex prósentum í 7,25. Vextir á slíkum lánum taka aðallega mið af tvennu, kostnaði bankanna við að veita lánin og svo stýrivöxtum Seðlabankans.

Forsvarsmenn bankanna gefa allir álíka skýringu; stýrivaxtahækkanir og kostnaður við lántöku skýri hækkun á árinu. Stýrivextirnir voru fjögur og hálft prósent í byrjun árs. Þeir hækkuðu um hálft prósentustig í júní og aftur í ágúst og loks um 0,25 prósentustig í nóvember. Þeir standa því í 5,75 prósentum og hækkuðu um 1,25 prósentustig í fyrra. Hækkanir bankanna hafa því haldist í hendur við stýrivaxtahækkanir Seðlabankans.

Greiðslubyrði af tuttugu og fimm milljóna króna óverðtryggðu íbúðaláni til þrjátíu ára með sex prósent vöxtum var um 150 þúsund krónur á mánuði. Greiðslurnar fara upp í um rúmlega 170 þúsund krónur miðað við 7,25 prósent vexti.