GPS-tæki senda ferðamenn á kaf í skafla

17.03.2014 - 16:09
Mynd með færslu
Björgunarsveitin Jökull á Jökuldal hefur í níu skipti á innan við ári þurft að sækja erlenda ferðamenn á bílaleigubílum á gamla veginn um Múla á Jökuldal en hann er ekki mokaður á veturna. Svo virðist sem úrelt kort í GPS-tækjum í bílaleigubílum beini ferðamönnum inn á gamla veginn.

Sindri Freyr Sigurðsson frá Aðalbóli, formaður björgunarsveitarinnar Jökuls, skorar á bílaleigur að uppfæra kort í GPS-tækjum enda virðist ferðamenn fylgja leiðbeiningum tækjanna í blindni. „Ástæðan yfir því að þeir fara þarna er í flestum tilvikum að bílaleigurnar leigja GPS tæki sem eru ekki með uppfærðum Íslandskortum. Það er kominn nýr vegur en þeir fylgja gamla veginum. Hann er ekki ruddur og síðasta vor þegar allt var autt fóru útlendingar þarna á framdrifsbíl og lentu í eina skaflinum sem eftir var óþiðnaður.“ Hann segir vandamálið það að á Íslandi séu yfir 50 bílaleigur skráðar og margar leigi bíla með GPS-tækjum sem hafa ekki nýjasta Íslandskortið.  „Við höfum helst lent í þessu með smærri bílaleigur. Erlendir ferðmenn þekkja ekki svona og kunna ekkert á þetta. Gera bara tilraun og sjá svo til.“

Loksins komnir á núllið eftir að mótorinn hrundi

Um 50 félagar eru skráðir í björgunarsveitina Jökul á Jökuldal en Sindri segir að virkir meðlimir séu 10-15 talsins. Mikið hefur verið að gera hjá Jökli frá því fyrir jól enda hefur oft verið ófært og leiðinlegt veður á þeirra svæði. Sveitin sér meðal annars um að aðstoða ökumenn á veginum frá Heiðarenda og alveg norður undir Vopnafjarðarafleggjara. Þar af er Háreksstaðleiðin erfiðasti kaflinn á veturna. Sveitin fjármagnar sig með flugeldasölu, félagsgjöldum og í gegnum samsjóð Landsbjargar. Jökull átti í fjárhagserfiðleikum eftir að vélin í jeppanum þeirra bilaði í desember 2012. „Það kostaði 1,8 milljónir að gera við og það voru ekki peningar sem við áttum,“ segir Sindri. Jökull hafi þurft að taka yfirdrátt fyrir viðgerðinni en síðan hafi björgunarsveitirnar á Austurlandi, svæði 13, tekið sig saman og grafið upp gamlan, aflagðan sjóð sem í voru nokkrir hundraðþúsundkallar. „Við erum nýkomnir á núllið aftur,“ segir Sindri.