Gott og framsækið plagg

20.02.2013 - 19:05
Mynd með færslu
Það er nauðsynlegt að breyta stjórnarskrám ríkja í takti við tímann og breyttan skilning á því sem stjórnarskráin þarf að innihalda, segir Tom Ginsburg, bandarískur stjórnlagafræðingur.

Stjórnarskrár endast yfirleitt ekki nema í nítján ára. Það sýnist okkur vera meðalaldurinn, segir Tom Ginsburg. Það virðist ekki langur tími þegar hugað er að því að stjórnarskráin á að sameina þjóðina og leggja grundvöllinn að pólitíkinni. Ef stjórnarskránni er sífellt breytt þá er hún einfaldlega ekki neitt grundvallarplagg. Þess vegna skoðum við þessa hluti og reynum að draga fram þau atriði sem virka og þau sem virðast ekki koma að gagni og höfundar stjórnarskrárfrumvarpa geta þá frekar séð til þess að vinna þeirra sé til framtíðar. Tom Ginsburg segir reyndar að það sé heldur ekki æskilegt að stjórnarskrá sé eilífðargripur. Thomas Jefferson Bandaríkjaforseti hafi á sínum tíma sagt að stjórnarskráin ætti að endast í níutíu ár, ætti sem sagt að lifa elstu menn, en Ginsburg segist ekki vera þeirrar skoðunar, Jefferson hafi einfaldlega haft rangt fyrir sér.

Það sé vissulega ástæða til að endurskoða grundvallarplaggið oftar en svo. Bandaríska stjórnarskráin er tvö hundruð og tuttugu ára. Í hana vantar mörg af þeim réttindum sem tilgreind eru í nútímalegum stjórnarskrám. Við lifum við þetta með lagalegum skýringum, segir Ginsburg. Menn leita að anda stjórnarskrárinnar og túlka hana í takti við nútímann. Ég er reyndar mjög gagnrýninn á okkar stjórnarskrá, segir Tom Ginsburg, einkum áherslu hennar á stofnanir. Við erum til dæmis með Öldungadeild þingsins þar sem lítill minnihluti getur hindrað framgang þingmála. Það er ekki lýðræðislegt. Og svo er það aðferð okkar við að velja forseta. Hún er sérkennileg, óvenjuleg, heimsbyggðin horfir upp á það á fjögurra ára fresti. Þessu myndi ég vilja breyta. Tom Ginsburg segir að í mörgum Afríkuríkja hafi borið á því að við gerð stjórnarskrár hafi menn skrifað inn ákvæði um skyldur alveg eins og réttindi. Það ættu Evrópuþjóðir að skoða því að í okkar heimshluta sé mest talað um réttindi en ekki skyldur okkar við samfélagið og við hvert annað. Ginsburg hallast að því að stjórnarskrár muni með tímanum taka mið hver af annarri og finnst það jákvætt að forseti Túnis hefur lagt til að komið verði á laggirnar eins konar alþjóðadómstól þar sem tekið yrði á stjórnarskrárbrotum. Ginsburg er hrifinn af þeirri aðferð sem beitt var á Íslandi við gerð stjórnarskrárfrumvarpsins. Einkum vegna þess hve opið allt ferlið var. Mér finnst frumvarpið vel unnið. Ef við færum í gegnum það hér og nú gæti ég eflaust stungið upp á ýmsum lagfæringum og ég veit að það hafa komið fram athugasemdir við það en Alþingi mun eflaust lagfæra frumvarpið í meðförum en á heildina litið tel ég það gott.