Gos líklegt í Öskju færist gangur þangað

27.08.2014 - 17:12
Mynd með færslu
Miklar líkur eru á því að berggangurinn undir Vatnajökli fari inn í Öskju, segir íslenskur jarðfræðiprófessor í Lundúnum. Komist hann inn í kvikuhólfið þá verði líklega eldgos.

Ágúst Guðmundsson prófessor við jarðfræðideild Lundúnaháskóla, Royal Holloway College, hefur meðal annars rannsakað bergganga og eldvirkni við Vatnajökul. 

"Líkurnar eru núna þær svo að ég undirstriki það eins og staðan er núna að þá eru stórar líkur á því að þessi gangur fari inn í Öskju. Og miðað við stærð gangsins, ef hann fer inn í litla kvikuhólf Öskju þá eru stórar líkur á því að það verði alla vega rifnun og líklega gos."

Hann segir að berggangurinn eða kvikugangurinn undir jöklinum sé orðinn mjög langur, 42 til 43 kílómetrar, og að kvikan sem hafi farið inn í ganginn sé að sínu mati að minnsta kosti einn til tveir rúmkílómetrar. Rætt var við hann í Fréttablaðinu í morgun. 

"Reyndar er ágætt að taka fram að langflestir gangar hvar sem er í heiminum, hvar sem er í eldstöðvum eða utan eldstöðva, þeir ná ekki til yfirborðs. Það er að segja flest möguleg gos, gos sem eru svona í pípunum þau verða aldrei gos."

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðiprófessor segir ganginn nú vera um 10 kílómetra frá megineldstöðinn Öskju sjálfri, en hann eigi mjög stutt eftir að gossprungu sem myndaðist á þriðja áratug síðustu aldar og liggur suðurs frá Þorvaldsfjalli. Þessi berggangur kemur úr megineldstöðinni Bárðarbungu og Ágúst segir að ef hann haldi svona áfram á fleygiferð sé það stórmerkilegt: 

"En þetta er í fyrsta skipti ef hann fer inn í Öskjuna, þá er þetta í fyrsta skipti sem við erum að sjá megingang raunverulega fara úr einu eldstöðvarkerfi yfir í annað. Og þá sem sagt með skýrum mælanlegum hætti."