Google semur um skattgreiðslur í Bretlandi

23.01.2016 - 03:10
Erlent · Evrópa · google
Forsíða Google á þýsku.
 Mynd: Pixabay
Netrisinn Google hefur samþykkt að greiða breska ríkinu 130 milljónir sterlingspunda, jafnvirði rúmlega 24 milljarða króna, vegna vangoldinna skatta. Fyrirtækið opnaði bókhald sitt fyrir breskum skattayfirvöldum eftir að hafa verið sakað um að nota bókhaldsflækjur til þess að takmarka skattgreiðslur.

Matt Brittin, stjórnandi Google í Evrópu, segir skattareglur vera að breytast í heiminum og bresk stjórnvöld séu þar í fararbroddi. Hann segir fyrirtækið ætla að haga sínum seglum eftir vindi stjórnvalda.

Google hefur verið til rannsóknar í sex ár í Bretlandi. Landið er eitt stærsta markaðssvæði fyrirtækisins. Árið 2013 voru tekjur fyrirtækisins í Bretlandi 3,8 milljarðar punda, 20,4 milljónir af þeim voru greiddar í skatt, eða rétt rúmlega hálft prósent af tekjum fyrirtækisins.

Írland hýsir höfuðstöðvar Google í Evrópu. Þar er fyrirtækjaskattur lægri en á Bretlandi. Fyrirtækið hefur einnig nýtt sér skattaskjól í Bermúda. Allt er þetta löglegt og segist Google hlíta alþjóðalögum varðandi skattgreiðslur.

Nú hefur fyrirtækið samþykkt að breyta bókhaldi sínu þannig að hærra hlutfall sölutekna verði skráð í Bretlandi en á Írlandi, og heitir því að greiða meiri skatta af sölunum í kjölfarið. Skattar verði einnig greiddir af tekjum áranna 2005 til 2015 á sama hátt.

Í samtali við breska ríkisútvarpið BBC segir Brittin Google ekki vera að viðurkenna skattsvik með samþykkt greiðslunnar. Hann segir fyrirtækið hafa farið eftir settum reglum. Þær reglur tilheyri hins vegar fortíðinni og nú greiði fyrirtækið skatta af sölutekjum í hverju landi fyrir sig.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV