Gönguskíðaæði á landinu

17.01.2016 - 18:59
Það er algjört æði í gangi, segir Stella Hjaltadóttir, skíðagönguþjálfari á Ísafirði. Gönguskíðaíþróttin verður sífellt vinsælli og nú þegar er fullt í 50 kílómetra Fossavatnsgöngu sem fer fram í lok apríl.

Það eru ekki tíðindi að Ísfirðingar iðki gönguskíðaíþróttina af kappi. Nú virðast þeir þó hafa smitað alla þjóðina af gönguskíðabakteríunni. „Það er mikil aukning á iðkendum, bæði hér á Ísafirði sem og annarsstaðar á landinu. Og það er frábært að fylgjast með hvernig þetta þróast,“ segir Stella. 

„Það er bara eitthvað æði í gangi. Bara örtröð í brautinni og erfitt að fá bílastæði,“ segir Helga Björt Möller.

„Það sem er svo skemmtilegt núna er að við erum að fá allskonar fólk, bæði fólk sem hefur stundað þetta lengi sem og fólk úr öðrum íþróttagreinum. Og bara fólk sem er að leita sér að góðri líkamsrækt,“ segir Kristbjörn Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Craftsport og Fossavatnsgöngunnar. 

„Ég flutti hingað á Ísafjörð í sumar og ef maður býr á Ísafirði þá verður maður að fara að æfa gönguskíði,“ segir hann.

Hvað er það sem heillar þig við þetta? „Það er bara útiveran og hreyfingin og líka góður félagsskapur sem fylgir þessu.“

Gönguskíðaæðið endurspeglast í sölu á gönguskíðum og sagðist sölumaður í Reykjavík hafa selt fleiri gönguskíði í desember en samanlögð tvö ár þar á undan, á Ísafirði hefur sala einnig aukist.

„Þetta hefur verið mun betra en í fyrra,“ segir Kristbjörn. „Ég er með alveg 30 prósent aukningu á sölu á skíðum, sem er mikill munur frá fyrri árum.“

Met hefur jafnframt verið slegið í skráningu í Fossavatnsgönguna. „Við erum með fjöldatakmarkanir í 50, reyndar ekki nema 500manns og það er nú þegar orðið uppfullt þar og komnir 60 manns á biðlista.“

 

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV