Gömlu verkefni FL Group beitt gegn Trump

13.03.2016 - 14:22
epa05206239 US businessman and Republican presidential hopeful Donald J. Trump speaks as retired Republican presidential hopeful Ben Carson (not pictured) announces his endorsement of Trump during a press conference at the Mar-A-Lago club in Palm Beach,
 Mynd: EPA
Andstæðingar Donalds Trumps reyna nú að koma höggi á bandaríska kaupsýslumanninn enda er hann líklegastur til að hljóta útnefningu Repúblíkanaflokksins fyrir forsetakosningarnar í haust. Óvildarmenn Trumps hafa til að mynda grafið upp misheppnað lúxushótel sem hann ætlaði að koma að við strönd Fort Lauderdale fyrir forkosningarnar í Flórída á þriðjudag. Íslenska fjárfestingafélagið FL Group fjárfesti í því verkefni og þremur öðrum fyrir 50 milljónir dollara árið 2007.

Fjárfesting FL Group í þessum verkefnum vakti nokkra athygli á sínum tíma - „FL Group í samstarfi við Donald Trump,“ var til að mynda fyrirsögnin á vef visir.is í maí 2007. „FL Group í fasteignaverkefnum í Bandaríkjunum,“ sagði á viðskiptavef mbl.is.

Bandaríska blaðið Miami Herald fjallar ítarlega  um fasteignaverkefnið í Fort Lauderdale - Trump Lauderdale eins og það kallaðist sem átti að vera fimm stjörnu hótel á ströndinni þar.

Fyrir forkosningarnar í Flórída hafa birst auglýsingar þar sem rifjað er upp að fasteignakaupendur hafi tapað innborgunum upp á milljónir dollara og fjöldi málsókna hafi verið höfðaður vegna framkvæmdanna. Auglýsingunum er ætlað að varpa ljósi á viðskiptahætti Trumps og hverjir hafi  verið samstarfsfélagar hans. 

Í grein Miami Herald er saga Trump Lauderdale rakin. Þegar lúxushótelið var afhjúpað árið 2006 blés auðkýfingurinn til mikillar veislu - meðal þeirra sem komu fram var rapparinn Wyclef Jean.

Miami Herald segir að allt hafi leikið í lyndi til að byrja með. Nafn Trumps trekkti að og skjöl sýna að fermetraverðið var 38 prósentum hærra en á öðrum strandhótelum. Í umfjöllun Herald kemur fram að strax næsta ár fór að síga á ógæfuhliðina og næstu tvö árin tókst ekki að ljúka við neinum framkvæmdum á tilsettum tíma. „Hótelið átti að vera tilbúið í desember 2007 en þeir voru ekki nálægt því,“ segir í grein Herald.

Enda fór það svo að forsvarsmenn fasteignafélagsins Bayrock, sem komu að verkefninu í Flórída ásamt Trump, seldu sinn hlut í þessu verkefni og þremur öðrum til íslenska félgasins FL Group fyrir 50 milljónir dollara. Salan var varla tilviljun - FL Group og Bayrock voru í miklu samstarfi á þessum tíma eins og lesa má um í þessum kynningarbækli.

Á vef mbl.is var haft eftir Kristjáni Kristjánssyni, þáverandi upplýsingafulltrúa félagsins, að Bayrock hefði haft frumkvæðið að þessu samstarfi.  Tevfik Arif, stjórnarformaður Bayrock, var árið 2010 handtekinn á snekkju undan ströndum Tyrklands, grunaður um mansal og aðild að rekstri vændishrings. Hann neitaði sök.

FL Group ákvað síðan í febrúar 2008 að losa sig úr flestum fasteignaverkefnum sínum vestanhafs.  „ Miðað við núverandi aðstæður viljum við minnka okkar hlut og klára málin, því það er ómögulegt að sjá hvert markaðurinn er að fara,“ var haft eftir Jóni Sigurðssyni, þáverandi forstjóra FL Group, í samtali við Viðskiptablaðið. 

2010 greindi DV svo frá því að dótturfélag FL Group - Fl Bayrock Holdco - hefði tapað 18 milljörðum árið 2008 á fasteignaviðskiptum í Bandaríkjunum. Félagið var úrskurðað gjaldþrota í janúar 2014 og lauk skiptum þess í maí sama ár. Ekkert fékkst upp í 16 milljarða kröfur í búið.

Viðskipti FL Group og Bayrock áttu síðar eftir að rata fyrir dómstóla í Bandaríkjunum þegar fyrrverandi starfsmaður Bayrock taldi sig hafa verið hlunnfarinn vegna viðskipta við FL Group.   

Fréttin hefur verið uppfærð

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV