Golden State bætti heimaleikjamet NBA

08.03.2016 - 06:41
Golden State Warriors' Stephen Curry (30) gestures after scoring against the Orlando Magic during the first half of an NBA basketball game Monday, March 7, 2016, in Oakland, Calif. (AP Photo/Marcio Jose Sanchez)
 Mynd: AP
Varla líður sá leikur þar sem Golden State Warriors bætir ekki met í NBA deildinni í körfuknattleik. Í nótt léku þeir gegn Orlando Magic á heimavelli sínum í San Francisco og fóru með sigur af hólmi, 119-113. Sigurinn var sá 45. í röð á heimavelli sem er nýtt NBA met og auk þess bætti Stephen Curry enn við met sitt í skoruðum þriggja stiga körfum.

Heimaleikjametið var í eigu Chicago Bulls liðsins sem á einnig metið yfir flesta unna leiki á tímabili. Þá vann liðið 72 leiki en tapaði tíu. Golden State hefur tapað sex leikjum þegar tuttugu leikir eru eftir af tímabilinu.

Stephen Curry var stigahæstur leikmanna Golden State í nótt með 41 stig. Hann skoraði úr sjö þriggja stiga skotum og hefur hann nú hitt úr 301 slíku skoti á tímabilinu, sem eru fimmtán fleiri en hann hitti úr á öllu síðasta tímabili.

Önnur úrslit NBA deildarinnar í nótt voru á þessa leið:
Charlotte Hornets 108-103 Minnesota Timberwolves
Cleveland Cavs 103-106 Memphis Grizzlies
Indiana Pacers 99-91 San Antonio Spurs
Chicago Bulls 100-90 Milwaukee Bucks
New Orleans Pelicans 115-112 Sacramento Kings
Dallas Mavericks 90-109 Los Angeles Clippers