Gleðjist yfir viðsnúningi í heilbrigðiskerfinu

15.02.2016 - 16:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði á Alþingi í dag að menn ættu að gleðjast yfir þeim viðsnúningi sem orðið hafi í heilbrigðiskerfinu. Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, sagði að sjúklingum sem liggja á göngum sé lítil huggun í reiknikúnstum forsætisráðherra.

Hart var tekist á um ástandið í heilbrigðismálum í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Forsætis- og heilbrigðisráðherra voru meðal annars spurðir um viðbrögð þeirra við þeim tíðindum að fjöldi þeirra sem skrifað hafa undir undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, náði yfir 75 þúsunda markið á þriðja tímanum í dag. Í undirskriftasöfnuninni sem Kári stendur fyrir, er þess krafist að ellefu prósentum af vergri landsframleiðslu verði varið í rekstur heilbrigðiskerfisins. 

Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurðu Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra um viðbrögð hans og ríkisstjórnarinnar við því ákalli sem undirskriftasöfnunin feli í sér. Kristján Þór sagði meðal annars að ekki væri hægt að leysa öll vandamál heilbrigðiskerfisins eins og hendi væri veifað. Hins vegar stæði til að reisa bæði ný hjúkrunarheimili og nýjar heilsugæslustöðvar. Þá benti hann á að kjör heilbrigðisstarfsfólks hefðu verið stórbætt á yfirstandandi kjörtímabili.

Þá spurði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, hvernig ríkisstjórnin ætlaði að bregðast við ákalli um aukin fjárframlög til heilbrigðiskerfisins. Sigmundur Davíð svaraði því til að ríkisstjórnin hefði stórbætt framlögin, og raunar aukið þau um 10%. Heilbrigðiskerfið hafi hins vegar verið svelt á síðasta kjörtímabili. Steingrímur J. brást við þessu með því að segja að sjúklingum sem liggja á göngum Landspítalans væri lítil huggun í reiknikúnstum forsætisráðherra. Sigmundur Davíð kom þá aftur í ræðustól og sagði að Steingímur J. ætti að gleðjast yfir þeim viðsnúningi sem orðið hafi í heilbrigðiskerfinu.