Glæpagengi ógna írskum blaðamönnum

12.02.2016 - 06:23
Mynd með færslu
 Mynd: RTÉ
Nokkrir írskir blaðamenn hafa verið varaðir við því formlega af lögreglu, að skipulögð glæpagengi ógni lífi þeirra og limum. Viðvörunin kemur í kjölfar tveggja morða á síðustu dögum, sem rakin eru til átaka tveggja glæpagengja í Dyflinni. Í yfirlýsingu frá fjölmiðlafyrirtækinu Independent News and Media (INM), sem meðal annars gefur út blaðið Irish Independent, segir að stjórn fyrirtækisins vinni með lögreglu að því að auka öryggi blaðamanna sinna.

Stephen Rae, aðalritstjóri Irish Independent, sagði ritstjórnina ekki láta hræða sig frá áframhaldandi umfjöllun um gengjastríðið. Sagði þá ógn sem blaðamenn byggju við jafnframt skelfilega ógn við fjölmiðlafrelsi á Írlandi. „Fjölmiðlafyrirtæki okkar mun ekki láta aftra sér frá því að þjóna hagsmunum almennings og benda á þá ógn sem samfélaginu í heild stafar af slíkum glæpamönnum." segir í yfirlýsingu Raes.

Edward McCann, einn af ritstjórum INM, segir það skyldu blaðamanna að greina frá staðreyndum mála og fletta ofan ýmsu sem miður fer. Þar á meðal hlutum sem gera glæpamönnum lífið leitt, sem aftur geti stefnt lífi þeirra blaðamanna í hættu, sem afhjúpa þá. Segir McCann að bæði írska lögreglan og INM taki þær hótanir sem borist hafa mjög alvarlega, og brugðist hafi verið við þeim með viðeigandi hætti. Blaðamannafélag Írlands fordæmir hótanir glæpagengjanna í garð félagsmanna sinna einnig harðlega og hefur þungar áhyggjur af þróun mála. 

Enginn hefur enn verið handtekinn vegna morðanna tveggja. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV