Glæfraakstur ferðamanna í Skaftafellssýslu

29.02.2016 - 15:29
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Tólf erlendir ökumenn voru teknir og kærðir fyrir of hraðan akstur á Suðurlandsvegi í nágrenni Kirkjubæjarklausturs í síðustu viku. Hjá tveimur mældist hraðinn 149 kílómetrar á klukkustund, þeim þriðja 142 og fjórða 136. Aðrir voru ekki fjarri, vel á öðru hundraðinu. Lögreglumenn á Suðurlandi hafa miklar áhyggjur af hraðakstri á þessum slóðum, enda margir ökumenn á ferð lítt vanir hálku og einbreiðum brúm.

„Þetta aksturslag er sannkallað áhyggjuefni“, segir Þorgrímur Óli Sigurðsson aðstoðaryfirlögregluþjónn. Lögreglan á Suðurlandi kærði alls 48 ökumenn fyrir of hraðan akstur í síðustu viku. Þá voru þrír kærðir fyrir ölvun við akstur og einn fyrir fíkniefnaakstur. Alls voru 13 af ökumönnunum 48 staðnir að því að aka á ólöglegum hraða austan og vestan Kirkjubæjarklausturs. Frá Kirkjubæjarklaustri að Höfn í Hornafirði eru 20 einbreiðar brýr, eða ein að meðaltali á hverjum 10 kílómetrum. Á þessari leið hefur hálka víða verið viðvarandi síðastliðnar vikur.

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV