Gjaldtaka hefst við Geysi

10.02.2014 - 11:51
Mynd með færslu
Gjald verður tekið af ferðamönnum sem heimsækja hverasvæðið við Geysi í Haukadal frá og með 10. mars næstkomandi. Gjaldið á að renna til uppbyggingar og verndar á svæðinu að því er fram kemur í tilkynningu frá Ladneigendafélagi Geysis.

Gjaldið verður notað til að standa straum af aukinni upplýsingagjöf til ferðamanna og til að auka þjónustu og öryggi gesta. Sautján ára og eldri munu þurfa að greiða 600 krónur fyrir heimsóknina. Hverasvæðið er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins en þangað koma allt að sex þúsund manns á dag þegar mest er. Landeigendur segja svæðið ekki þola þennan mikla fjölda gesta og því liggi viðkvæmir hlutar undir skemmdum.

Eigendur svæðisins hafa þurft að bera mikinn kostnað af svæðinu án þess að fá nokkrar tekjur á móti til að sinna viðhaldi og uppbyggingu. Hafin hefur verið vinna við öryggisáætlun og forgangsröðun verkefna. Gert er ráð fyrir að 8 til 13 störf muni skapast vegna rekstursins og er það fyrir utan þau störf sem skapast við uppbygginguna sjálfa.