Gjaldtaka „ekki viðunandi“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Mynd: RÚV


  • Prenta
  • Senda frétt

Forsætisráðherra segir að gjaldtaka á ferðamannastöðum hér og þar eftir ólíkum leiðum sé óviðunandi. Hann segir mikilvægt að grípa til ráðstafana í þessum efnum áður en menn missa þetta úr böndunum.

Í ljósi mikillar fjölgunar ferðamanna hingað til lands hefur að undanförnu mikið verið rætt um gjaldtöku af ferðamannastöðum og almannarétt. Iðnaðarráðherra hefur boðað frumvarp um náttúrupassa á vorþingi. Fyrirhuguð er gjaldtaka á helstu ferðamannastöðum í Mývatnssveit og fyrr í þessum mánuði hófu landeigendur á Geysissvæðinu að innheimta gjald fyrir aðgang að svæðinu. Á Alþingi í dag var málið áfram til umræðu og spurt hver stefna ríkisstjórnarinnar væri.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, sagði að hann óttaðist að ef ekki yrði gripið til ráðstafana og settur rammi um þessi mál myndu stjórnvöld missa tökin á málinu. „Og það tel ég að væri skaðlegt fyrir okkur öll,“ sagði Árni Þór.

 

Ekki viðunandi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagðist deila þessum áhyggjum Árna Þórs. Mikilvægt væri að grípa til ráðstafana áður en málið yrði enn flóknara viðureignar. 

Forsætisráðherra segir að þessi mál hafa verið rædd í ríkisstjórn. Þau séu á forræði iðnaðarráðherra en forsætisráðherra leggur áherslu á að gjaldtakan verði notuð fyrst og fremst til að byggja upp ferðaþjónustuna, þannig að aðgengi verði betra og öruggara.

„Ég tel það ástand sem nú sést glitta í með gjaldtöku hér og þar með ólíkum leiðum sé ekki viðunandi,“ segir Sigmundur. 

Ertu með athugasemd vegna fréttarinnar? Sendu á frettir@ruv.is

Tilkynna um bilaða upptöku