Gjafmildi Jackie Chan heldur áfram hérlendis

06.03.2016 - 15:45
Mynd með færslu
 Mynd: Wiki commons  -  RÚV
Gjafmildi hasarstjörnunnar Jackie Chan heldur áfram hér á landi. RÚV.is greindi frá því að Chan, sem hefur undanfarið verið hér við tökur á myndinni Kung Fu Yoga, hafi vakið athygli Bollywood-miðla þegar hann færði indversku leikkonunni Amyru Dastur sérhannaða úlpu.

Úlpuna hannar Chan sjálfur og er hún aðeins ætluð sérstöku áhættuleikarateymi hans en Chan þykir sjálfur einn færasti áhættuleikari heims. Hann hefur leikið áhættuatriði sjálfur um langt skeið og margsinnis brotið bein og slasað sig við þá iðju.

Jón Viðar Arnþórsson, forseti bardagaklúbbsins Mjölnis, greinir frá því á samfélagsmiðlum að hann hafi einnig eignast eintak af áhættuúlpunum sjaldgæfu. Vinur Jóns, Páll Bergmann, starfaði með Chan við tökur hér á landi en hasarmyndahetjan færði Páli áritað eintak af úlpunni.

Páll var ekki lengi að hugsa sig um og færði Jóni úlpuna að gjöf en Chan er eitt helsta átrúnaðargoð hans úr æsku.

 

Já ég hitti átrúnaðargoðið mitt í gær og já ég er í úlpunni hans!!!! JACKIE CHAN! Þegar ég var unglingur: 1. Eyddi ég öllum peningunum mínum í að kaupa gamlar Kung Fu myndir á VHS með Jackie Chan. 2. Ég eyddi miklum tímanum á hverjum degi í að horfa á myndirnar hans aftur og aftur, auk þess að æfa. Enda var ég bara með 50% mætingu í skólanum! 3. Ég las ævisöguna hans þótt ég læsi aldrei bækur og væri með 2,5 í meðaleinkun í ensku. 4. Ég reyndi að apa allt eftir honum, því ég dýrkaði hann. Enda er hann ein fremsta kvikmyndabardagastjarna heims og lang flottasti stunt leikari allra tíma. Hann á því stóran part í Mjölni og öllum þeim bardaga/ofbeldissenum sem ég hef sett upp í íslenskum kvikmyndum. Einn af mínum bestu vinum, Páll Bergmann, var að keyra Jackie Chan í 10 daga á meðan að Jackie vann að nýjust kvikmynd sinni hér á Íslandi. Goðsögnin var auðvitað hrifin af Palla, bara eins og allir, fór úr úlpunni sinni, áritaði hana og gaf Palla hana. Palli gaf mér úlpuna svo í gærkvöldi. Er hægt að byðja um betri vin? Ég næstum því táraðist og það þarf mikið til að svo gerist! Takk elsku Palli, ég mun hengja hana upp fyrir ofan rúmið mitt!! #jackiechan #mjolnirmma #stunts #kungfu #drunkenmaster

A photo posted by Jón Viðar Arnþórsson (@jon_vidar_arnthorsson) on

Mynd með færslu
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV