Gífurlegt magn kviku undir yfirborðinu

24.08.2014 - 13:32
Mynd með færslu
Tveir skjálftar yfir fjóra að stærð mældust í innskotsganginum undir Dyngjujökli í morgun. Gífurlegt magn kviku er í göngunum. Engin ákvörðun hefur verið tekin um að aflétta lokunum eða rýmingum sem settar voru á í gær.

Kristín Jónsdóttir fagstjóri jarðvár hjá Veðurstofu Íslands segir að leitað sé skýringa á þeim merkjum sem menn greindu í gær sem eldgos. „Við höfum sambærileg gögn frá fimm eldgosum undir Vatnajökli. Við mátum þetta merki, miðað við merki sem við höfum áður séð og reynslu okkar af eldgosum undir jökli, þá mátum við það svo að þetta merki þýddi það að þarna væri gos farið að hefjast,“ segir Kristín. Frekari athuganir hafi leitt í ljós að svo var ekki. „Bæði leiðnimæling í ám og svo flug þarna yfir staðfestir það að svo er ekki, þannig að við þurfum því að leita nýrra skýringa og erum ekki komin með niðurstöðu í það mál,“ segir Kristín.

Enn sé mikil skjálftavirkni í Bárðarbungu og Dyngjujökli. „Það er mikil hreyfing á þessu svæði, og virknin eins og hún hefur verið síðan í gær heldur áfram,“ segir Kristín. Innskotsgangur kvikunnar lengist enn. „Þessi gangur hefur lengst lítillega enn til norðurs, og norðurendinn er þá líklegast kominn undir sporð Dyngjujökuls.“

„Það sem við höfum verið að sjá núna í morgun er að skjálftavirknin er mjög mikil, það hafa orðið tveir jarðskjálftar í ganginum í morgun sem eru rúmlega 4 að stærð. Skjálftastærðir hafa stækkað og fjöldinn er mjög mikill þarna. Líklega er þetta að segja okkur að kvikuflæði er að aukast á þessum stað.“ Sterkari skjálftar mældust í öskju Bárðarbungu í nótt. „Skjálftarnir í öskjunni, við túlkum það svo, með samtúlkun GPS-mælinga og jarðskjálftamælinga, að þeir gætu verið að svara þessu mikla álagi sem verður í berginu þarna í kring, vegna þessarar kviku sem er að troða sér þarna,“ segir Kristín.

Gífurlegt magn kviku í innskotsganginum

GPS-mælingar og líkanreikningar jarðvísindastofnunar bendi til að í göngunum séu um 270 milljón rúmmetrar kviku. Það jafngildir um það bil því svæði sem 900 kassar sem næðu utan um Hallgrímskirkju myndu þekja. Kristín segir að þó kvikan færist enn norður, sé ekki hægt að útiloka eldgos undir jökli. „Nei, við erum enn í þeirri stöðu að við erum að fylgjast með mínútu frá mínútu, og vitum í raun og veru ekkert upp á hverju þetta eldfjall tekur.“  

Víðir Reynisson deildarstjóri almannavarna segir engar ákvarðani verið teknar enn um breytingar á lokunum og rýmingum. „Það hafa engar ákvarðanir verið teknar um að aflétta þeim lokunum sem að við settum á í samstarfi við lögreglustjórann á Húsavík og Seyðisfirði í gær,“ segir Víðir. Víðir segir mikilvægt að nýta reynsluna sem fékkst af rýmingu svæðisins í gær. „Þetta tók mjög langan tíma og var umfangsmikið, þannig að við viljum fara mjög vel yfir það áður en við förum að hleypa fólki aftur á þetta svæði. Það setur okkar vinnu í erfiðar aðstæður að vera með mikið af fólki á svæði sem þarf að rýma, þannig að við erum ekkert að flýta okkur að taka ákvörðun um það, við viljum fara vel yfir alla málavöxtu.“

Mikilvægt að fólk fái réttar upplýsingar

Veðurstofan, Jarðvísindastofnun Háskólans og ríkislögreglustjóri ásamt fjölda annarra stofnana sjá um að miðla upplýsingum um stöðu mála. „Það eru mjög margir sem koma að því að koma á framfæri réttum upplýsingum, en stundum bara virðist það ekki vera nóg. Við erum að reyna að gera okkar besta í samstarfi allra, að við séum öll að gefa sömu upplýsingarnar og að það séu bestu og réttustu upplýsingarnar sem við höfum á hverjum tíma,“ segir Víðir. „Það er mikilvægt að menn horfi á það, áður en þeir dreifa upplýsingum, hvaðan upplýsingar koma og að það sé ekki verið að dreifa gróusögum eða getgátum sem hafa ekki stuðning í vísindalegum gögnum starfsmanna Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnuna Háskólans,“ segir Víðir.