„Getum ekki lengi rekið nám með halla“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands segir að Háskólinn geti ekki rekið námsbrautir með halla ár eftir ár, honum sé þröngur stakkur skorinn fjárhagslega. Flutningur námsbrautar Háskólans í íþrótta og heilsufræði frá Laugarvatni til Reykjavíkur hefur verið harðlega gagnrýndur. Háskólarektor segir að með því að færa nám í íþróttafræði frá Laugarvatni til Reykjavíkur megi ná fram hagræðingu.

„Við verðum að halda okkur innan fjárheimilda og það er bara mjög erfitt. Þess vegna getum við hreinlega ekki rekið nám með halla ár eftir ár“, segir háskólarektor. Hann segir að nemendum hafi fækkað meira á Laugarvatni en í öðru kennaranámi, þetta sé ljóst af skráningartölum frá árinu 2012. „Þá hefur verið fækkun upp á 41 prósent í íþrótta- og heilsufræði en 23 prósent í grunnskólakennarafræði. Hins vegar hefur verið fjölgun í leikskólakennarafræðum um 41 prósent. Háskóli Íslands getur,  með því að færa íþróttafræðinámið til Reykjavíkur, mögulega fjölgað nemendum í því og náð meiri samþættingu hér á höfuðborgarsvæðinu.“

„Líka jákvæð viðbrögð“

Háskólarektor segir að viðbrögð við ákvörðuninni séu vissulega hörð, einkum frá stjórnmálamönnum. „En svo fáum við líka jákvæð viðbrögð“.  En frá hverjum helst? „Bara ýmsum, sem standa jafnvel að náminu og ýmsum bara sem hafa áhuga á háskólamálum á Íslandi“. Mest er gagnrýnt að Háskóli alls landsins skuli flytja til Reykjavíkur nám sem á rætur og hefð úti á landi. Allt sogist til Reykjavíkur. „Háskólinn er með ýmis konar starfsemi á landsbyggðinni. Við rekum til að mynda 7 fræðasetur á 9 stöðum og sum af þeim eru á Suðurlandi. Síðan erum við jarðskjálftamiðstöð, rannsóknarmiðstöð á Selfossi“.     

Hvað gerist næst?

Jón Atli segir að nýnemar í íþróttafræði hefji nám í Reykjavík næsta haust. Annars og þriðja árs nemar verði áfram á Laugarvatni næsta vetur. En lýkur þá íþróttafræðinni þar vorið 2017? „Það er ekki alveg ljóst. Það þarf til að mynda að fara yfir það þegar nemendur innrita sig í nám gera þeir það á ákveðnum forsendum. Við viljum gæta hagsmuna nemenda í þessu. Það gæti orðið eitt ár til viðbótar.  „Við höfum því í það minnsta eitt ár til þess að vinna að hugmyndum okkar. Háskólinn er ekkert að fara frá Laugarvatni. Við höfum áhuga á því að vinna með fólkinu á staðnum að einhvers konar starfsemi sem Háskóli Íslands kemur að. Það samtal verður að fara fram og við getum ekki ákveðið það einhliða hvernig þetta verður gert“.

Önnur starfsemi HÍ á Laugarvatni?

Jón Atli segir að einkum hafi verið rætt um þrjár hugmyndir um áframhaldandi starf á Laugarvatni. Þær séu allar háðar áhuga og fjármögnun. „Í fyrsta lagi erum við að tala um einhvers konar miðstöð HÍ á Laugarvatni fyrir nám kennslu, rannsóknir og  þróunarstarf. Það gæti orðið styttri námskeið, lotur 1-2 vikur í senn, fundahöld, minni ráðstefnur, kennarar í rannsóknarmisseri og vinnubúðir fyrir nemendur og starfsmenn. Þetta væri hægt að nýta fyrir íþrótta- og heilsufræði ef námsbrautin telur það mjög mikilvægt“.

„Annar möguleiki er rannsóknarsetur HÍ á Laugarvatni, með 1-2 starfsmenn. Samtal við heimamenn og fólk hér í akademíunni myndi ákveða það hvaða rannsóknir og hvers konar setur þetta yrði. Þetta gæti til að mynda verið um þróun staðarins sem ferðamannastaðar og þróun byggðar á Suðurlandi, einnig menntavísindi, náttúruvísindi eða eitthvað sem tengdist íþrótta- og heilsufræði. Slíkt rannsóknarsetur myndi ekki bara draga að sér 1-2 starfsmenn , heldur líka nemendur í meistara- og doktorsnámi“.

„Þriðji möguleikinn snýr ekki beint að Laugarvatni. Það er samstarf við Háskólafélag Suðurlands um námskeiðahald og ef til vill fjarkennslu. Háskólinn hefur verið að skoða þetta hvernig hann getur komið betur til móts við landsbyggðina varðandi slíkt, líka í öðrum landshlutum“.

 

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV