Gekk 500 metra nakinn eftir hjálp

02.01.2015 - 12:34
Mynd með færslu
Maðurinn sem gekk út úr logandi húsi á Bjargi í Eyjafjarðarsveit aðfaranótt aðfangadags var nakinn þegar hann læstist úti. Hann reyndi að brjóta sér aftur leið inn í húsið en komst ekki inn vegna hita.

Eldurinn kom upp í eldhúsi íbúðar á neðri hæð hússins en í húsinu voru þrír, Vífill Valgeirsson, eiginkona hans og tengdamóðir. Vífill og eiginkona hans gistu á neðri hæðinni og voru þar með þurrkofn í gangi sem þau þurrkuðu matvæli í. Um nóttina vaknaði Vífill og fann mikinn hita og lykt af reyk. Hann flýtti sér fram og segist hafa fengið það á tilfinninguna að allt húsið stæði í ljósum logum. Þá kom á hann fát og hann dreif sig út úr húsinu. Hann tók þó ekki eftir því að útidyrahurðin var í lás og hún lokaðist á eftir honum. 

Vífill stóð því einn úti allsnakinn, eins og hann hafði farið að sofa, og góð ráð dýr. Á hurðinni er gluggi sem hann braut til þess að geta opnað hurðina en hann treysti sér þó ekki inn vegna hitans sem mætti honum. Hann kallaði til eiginkonu sinnar sem svaraði honum en treysti sér ekki fram. Þá fór hann upp til að reyna að komast inn til tengdamóður sinnar en þar var sama sagan, hurðin í lás. 

Ætluðu að vera á Bjargi um jólin
Vífill ákvað því að ganga yfir á næsta bæ sem er í um 500 metra fjarlægð til að sækja hjálp. Það tókst og um fimmtán mínútum síðar kom slökkvilið og bjargaði konunum tveimur úr húsinu. Tæpara mátti það varla standa því eiginkona Vífils var þá við það að missa meðvitund. Hún var flutt á gjörgæsludeild með reykeitrun og var útskrifuð af sjúkrahúsinu nokkrum dögum síðar. Fólkið fékk skjól hjá fjölskyldu sinni í Eyjafirði yfir jól og áramót, en það hafði ætlað að vera á Bjargi yfir hátíðarnar.

Fréttastofa falaðist eftir viðtali við Vífil sem baðst undan því en samþykkti að sagt yrði frá því sem gerðist.