Gefur ekki upp þriðjung styrkja

05.06.2010 - 12:19
Mynd með færslu
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, þáði 25 milljónir króna í styrki fyrir prófkjör flokksins fyrir fjórum árum. Hann hefur ekki greint frá því hverjir styrktu hann um níu milljónir króna. Langmest af styrkjunum kom úr ranni útrásarvíkinga Það var klukkan átta mínútur yfir sjö í gærkvöldi sem Guðlaugur Þór sendi frá sér fréttatilkynningu um styrkina - rétt eftir að beinni útsendingu RÚV frá Æsufelli í Breiðholti, þar sem greint var frá myndun nýs meirihluta í borginni. Guðlaugur Þór Þórðarson aflaði 25 milljóna króna í styrki fyrir prófkjör Sjálfstæðisflokksins fyrir fjórum árum. Þar atti hann kappi við Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, og hafði Guðlaugur betur.

Hæstu styrkina veittu Baugur, FL Group og Fons. Slitastjórn Glitnis skilgreindi nýverið nokkra helstu eigendur og stjórnendur þessara fyrirtækja sem klíku undir stjórn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem hafi rænt bankann innan frá.

Þá styrkti Austursel, lögfræðifyrirtæki Hreins Loftssonar, framboð Guðlaugs um eina og hálfa milljón króna, en Hreinn sagði nýverið í samtali við DV að það hefði verið sér sérstök ánægja að styrkja Guðlaug, enda hefði hann aldrei verið í aðdáendahópi Björns Bjarnasonar. Hreinn og Jón Ásgeir voru árum saman nánir viðskiptafélagar. Landsbankinn, sem var í eigu Björgólfsfeðga, styrkti Guðlaug sömuleiðis um hálfa aðra milljón króna.

Kaupþing-banki styrkti þingmanninn um eina milljón, jafnmikið og Atorka Group. Í ársbyrjun 2006 var Þorsteinn Vilhelmsson stjórnarformaður Atorku.

Milestone veitti Guðlaugi styrk upp á 750 þúsund, en félagið var á þessum tíma í eigu bræðranna Karls og Steingríms Wernessonar.

Í fyrrasumar hóf embætti sérstaks saksóknara að rannsaka umfangsmiklar fjárfestingar bræðranna í gegnum Sjóvá og Milestone, en tryggingafélagið tapaði rúmum þremur milljörðum króna á fasteignakaupum í Hong Kong. Þá má geta þess að Actavis styrkti Guðlaug Þór um 250 þúsund. Karl Wernersson sat þá í stjórn félagsins. Róbert Wessman var framkvæmdastjóri og Björgólfur Thor Björgólfsson stjórnarformaður.

Guðlaugur Þór gefur ekki upp hverjir styrktu hann um tæpar níu milljónir króna, en segir að um hafi verið að ræða sextán aðila. Ekki er gefið upp hvort einn eða fáir af þessum aðilum hafi styrkt Guðlaug um háar fjárhæðir.

Þingmenn eru hvattir til að greina frá fjárhagslegum hagsmunum sínum. Á vefsíðu Guðlaugs á alþingisvefnum segir að Þingmaðurinn hafi enga fjárhagslega hagsmuni sem reglurnar taki til.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, greindi nýverið frá því að hún hefði þegið þrettán milljónir króna í styrki í tveimur prókjörum 2006 og 2007. Hún hefur sagt af sér þingmennsku.