Gangi ekki að skilja eftir 5% félagsmanna

06.11.2014 - 09:31
Mynd með færslu
„Það virðist sem þeir geri sér ekki grein fyrir því að Kennarasamband Íslands er stéttarfélag. Þeir halda að þetta séu regnhlífarsamtök,“ segir Sigrún Grendal, formaður Félags tónlistarkennara um viðhorf embættismanna og kjörinna fulltrúa til kjaradeilu tónlistarkennara.

Tónlistarkennarar hafa nú verið í verkfalli á þriðju viku. Ekkert kom út úr samningafund sem fram fór á þriðjudag og næsti samningafundur hefur verið boðaður í fyrramálið. Sigrún segir að innan Kennarasambandsins eru kennarar á öllum skólastigum, einnig tónlistarkennarar. „Og það að taka fimm prósent úr einu og sama stéttarfélaga og setja aftur fyrir sig og skilja eftir tugum prósenta lægra í launum. Ég átta mig ekki á hvort menn hreinlega geri sér grein fyrir þessu.“

Sigrún segir að félagsmenn velti því mikið fyrir sér þessa dagana hvort það þurfi að semja við sveitarfélögin í heild. Samstarf sé að aukast milli skólastiganna sem sveitarfélögin reka, það er leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla. „Í einhverjum tilfellum er það þannig að tónlistarkennarinn vinnur í sömu byggingu fyrir grunnskóla og tónlistarskóla og með því að labba milli herbergja þá lækkar hann um tugi þúsunda í launum. Þessa stefnumörkun sé ég hvergi á prenti heldur algjörlega hið gagnstæða. Þannig að ég velti því fyrir mér hvert menn geri sér raunverulega grein fyrir því hvert  menn eru að fara í þessum samningum. Ég eiginlega bara vona að þetta sé ekki einhversstaðar skráð í orð að þetta sé þeirra stefnumörkun.