Game of Thrones við Kálfaströnd

08.11.2012 - 16:15
Mynd með færslu
Tökur á bandarísku sjónvarpsþáttaröðinni Game of Thrones hefjast 16.nóvember við Kálfaströnd. Stærstur hluti tökuliðsins kemur til landsins um helgina og Snorri Þórisson hjá Pegasus, sem aðstoðar tökuliðið, segir að framleiðendum þáttanna hafi þótt nóg um þegar þeir sáu allan snjóinn fyrir norðan.

Tökuliðið hafði gert sér vonir um að þeir fengju smá snjó þegar þeir kæmu hingað og  Norðurland varð fyrir valinu vegna þess. Snorri segir að einn starfsmaður hafi haft það á orði að menn skyldu framvegis  fara sér hægt þegar þeir biðluðu til íslensku veðurguðanna; þetta hefði verið heldur mikill snjór.

Tökudagarnir verða um átta og fara flestir fram í landi Kálfastrandar í Mývatnssveit. Þá verða hugsanlega einhverjar tökur í Dimmuborgum þótt Snorri telji það ósennilegt, náttúruperlan hafi verið skoðuð en þar hafi verið of mikill gróður.

Um 270 manns koma að tökunum, þar af í kringum sjötíu Íslendingar sem verða í litlum aukahlutverkum. Þar fara fremstir í flokki liðsmenn skylmingaflokksins Rimmugýgur.

Snorri segir það þegar hafa verið nefnt að tökuliðið komi hingað aftur á næsta ári vegna fjórðu þáttaraðarinnar. „Þeir eru svo hrifnir af Íslandi.“