G20 óttast brotthvarf Breta úr ESB

27.02.2016 - 14:28
epa05183073 Chinese Finance Minister Lou Jiwei (front C) greets Turkish Deputy Prime Minister Mehmet Simsek (front L) as People's Bank of China Governor Zhou Xiaochuan (Front 2-R) and German Finance Minister Wolfgang Schaeuble (front R) look on
 Mynd: EPA  -  EPA/POOL
Fjármálaráðherrar tuttugu helstu efnahagsvelda heims vara við því að brotthvarf Breta úr Evrópusambandinu gæti orðið áfall fyrir alþjóðahagkerfið. Málið var rætt á fundi ráðherra 20 helstu efnahagsvelda heims sem hófst í Sjanghaí í gær.

Leiðtogar G20 ríkjanna þinga á haustfundum ár hvert. Sá næsti verður í Hangzhou í Kína í byrjun september. Fyrir þá fundi þinga fjármálaráðherrar ríkjanna, seðlabankastjórar og forvígisfólk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans, að þessu sinni í Sjanghaí.

Staða alþjóðahagkerfisins var til umræðu á fundinum. Í drögum að lokatilkynningu frá fundinum - sem BBC og AFP fréttaveitan hafa undir höndum - segir að G20 ríkin hafi skuldbundið sig til að nota öll stjórntæki til að hlúa að tiltrú á efnahagskerfinu og styrkja efnahagsbata um allan heim. Sá bati sem þegar hafi orðið sé misgóður milli ríkja og álfa og nái ekki þeim markmiðum sem leiðtogar landanna hafi sett sér. Hætta sé á niðursveiflu í efnahgslífinu. Ýmsar ástæður eru tilteknar í því sambandi - helst þar á meðal er mögulegt brotthvarf Breta úr Evrópusambandinu, en ef af því yrði myndi skapast mikil óvissa. Þjóðaratkvæðagreiðsla verður um málið í júní.

BBC ræddi við ónefnda fulltrúa í fylgdarliði breska fjármálaráðherrans George Osborne - sem sat fundinn. Þeir segja að það komi á óvart að brotthvarf Breta sé tiltekið með helstu ástæðum fyrir mögulegri niðursveiflu en neita því að Osborne hafi þrýst á að það væri tekið með. Ríkisstjórn breska Íhaldsflokksins hefur gert samkomulag um breytingar á aðildarsamningi Breta að ESB og vill að þeir verði áfram í sambandinu. 

Osborne sagði í viðtali við BBC að ef það væri mat manna að úrsögn Breta úr ESB yrði áfall fyrir alþjóðlega efnahagskerfið mætti rétt ímynda sér áhrifin fyrir það breska. Fulltrúar Bandaríkjanna, Kína og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fundinum hafi verið einróma í afstöðu sinni.