Fyrrverandi forsætisráðherra í steininn

14.02.2016 - 18:17
epa05082860 Former Israeli prime minister Ehud Olmert stands in the court room as he waits for the judges at the Supreme Court in Jerusalem, 29 December 2015.  Ehud Olmert will become the first former Israeli prime minister to go to jail after Israel&#039
 Mynd: EPA  -  AFP/POOL
Ehud Olmert, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels, byrjar á morgun að afplána nítján mánaða fangelsisdóm, sem hann fékk fyrir spillingu. Dómurinn var kveðinn upp skömmu fyrir síðustu áramót.

Olmert, sem er sjötugur að aldri, á að mæta í Maasiyahu-fangelsið í borginni Ramle. Þar afplánar sjö ára fangelsi jafnaldri hans, Moshe Katsav, fyrrverandi forseti Ísraels. Hann var dæmdur fyrir nauðgun og annað kynferðislegt ofbeldi.

Ehud Olmert verður vistaður í sérstakri álmu, þar sem fyrir eru fjórir fangar sem af ýmsum ástæðum geta ekki verið innan um aðra fanga. Hætta er talin á að hann verða fyrir ofbeldi vegna fyrrverandi stöðu sinnar í samfélaginu.

Ehud Olmert er fyrsti forsætisráðherrann í Ísrael sem fær fangelsisdóm. Samsæriskenningasmiðir hafa haft á orði að líklega hafi hann fengið dóm fyrir þær sakir að hafa reynt að semja frið við Palestínumenn.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV