Fyllsta öryggis hafi verið gætt

08.04.2010 - 17:00
Mynd með færslu
Stjórnendur Arctic Trucks jeppafyrirtækisins segja að fyllsta öryggis hafi verið gætt í leiðangri bresku sjónvarpsmannanna sem voru á Fimmvörðuhálsi í gær.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórnarformanni fyrirtækisins sem send var út vegna frétta og umræðu um tilraunir til að keyra jeppa á hrauninu við gosstöðvarnar, en það gerðu stjórnendur Top Gear sjónvarpsþáttarins sem þarna var tekinn upp.

Í yfirlýsingunni segir að eingöngu framdekkjum á einum bíl hafi verið ekið upp á hraunjaðarinn. Tilgangurinn hafi verið að láta kvikna í dekki fyrir myndavélarnar, til að sýna fram á að umgengni við gosstöðvar væri hættuleg, og lífshættuleg á hrauninu sjálfu. Það hafi meðal annars verið markmið þáttastjórnenda Top Gear, eins og segir í yfirlýsingunni.

Varðstjóri lögreglunnar á Hvolsvelli og stjórnandi hjá Almannavörnum hafa gagnrýnt þetta framferði harðlega. Stjórnendur Top Gear þáttarins vildu ekki tjá sig um málið við fréttastofu í morgun.  

Umhverfisstofnun hefur óskað eftir að því við Sýslumanninn á Hvolsvelli að hann taki málið til skoðunar. Bannað sé að aka utan vega og mikilvægt sé að fólk gangi vel um gossvæðið á ferðum sínum um það.  Með vorinu fari frost úr jörðu á svæðinu og jarðvegurinn sé mjög viðkvæmur fyrir umferð.  Í tilkynningu frá stofnuninni er þó bent á að heimilt er að aka utan vega á frosinni jörð sem er snævi þakin svo og á jöklum.