Fundað á ný á mánudag

22.11.2014 - 16:42
Mynd með færslu
Ríkissáttasemjari hefur boðað fund í deilu tónlistarskólakennara og sveitarfélaganna klukkan eitt á mánudag.

Í gær kom tilkynning frá sambandi íslenskra sveitarfélaga um að tónlistarskólakennarar hefðu hafnað tilboði samninganefndarinnar þá um daginn og sagði ennfremur að tónlistarskólakennarar krefðust hærri launa en leik- grunnskólakennarar.

Sigrún Grendal Jóhannesdóttir, formaður félags tónlistarskólakennara, furðar sig á þeirr tilkynningu og segir fátt í henni á traustum grunni byggt. Sveitarfélögin lögðu fram tilboð á mánudaginn en síðan þá hefðu menn rætt ýmislegt og látið ganga á milli mismunandi túlkanir og nálganir og reynt að halda viðræðum inni í karphúsinu. Yfirlýsing sveitarfélaganna sé liður í því áróðursstríði sem þau hafi rekið á hendur kennurum og hún sé reyndar í takt við hótanir sem þaðan hafi borist. Engu líkara sé en svínbeygja eigi tónlistarkennara til hlýðni. Sigrún segir að tónlistarkennarar hafi slegið af kröfum sínum og það hafi komið fram í bréfi sem sent var stjórn sambandsins og tekið fyrir á fundi hennar í gær.

Stjórn Kennarasambands Íslands vill ítreka mánaðargamla ályktun sína um kjarabaráttu tónlistarskólakennara. Þar er harmað að tónlistarkennararar skuli þurfa að grípa til þess neyðarúrræðis að boða verkfall og bent á að ábyrgð vinnudeilunnar hvíli fyrst og fremst á herðum stjórnvalda. Það vekur sérstaka athygli að allt sem sagt var fyrir mánuði- rétt áður en verkfall hófst, eigi enn við. Tónlistarskólakennarar og stjórnendur geti með engu móti unað því að vera lægra settir í launum en aðrir félagsmenn Kennarasambandsins. Mikilvægt sé að deilan leysist sem fyrst svo hún bitni ekki á nemendum.