Frumkvæðið komi frá þjóðinni - ekki ráðamönnum

18.01.2016 - 08:14
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Helgi Hrafn Gunnarsson, kafteinn Pírata á Alþingi, segir að ekki sé neitt sem kalli á hugmynd Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, um þjóðaratkvæðagreiðslu um verðtryggingu. Nærri lagi væri að leggja tillöguna fram yfirhöfuð og svo gæti þjóðin kosið um hana ef hún sjálf kærði sig um það.

Sigmundur viðraði þessa hugmynd sína í sjónvarpsþættinum Eyjunni á Stöð 2  síðdegis í gær um að verðtryggingin yrði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu. „ Þetta er mál sem maður sæi fyrir sér að væri hægt að setja í að minnsta kosti ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að stjórnvöld hefðu þá þjóðina á bak við sig í því að fylgja þessu eftir,“ sagði Sigmundur Davíð.

Helgi Hrafn segir í pistli á vefsvæði Pírata að það sé ekki aukaatriði heldur lykilatriði að „frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslum um mál á Alþingi komi frá þjóðinni en ekki ráðamönnum sjálfum.“ Það séu ekki lýðræðisumbætur að ráðamenn leggi fram spurningar að eigin vali og að eigin frumkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslur „ vegna þess að það valdeflir fyrst og fremst ráðamenn sjálfa,“ skrifar Helgi.

Hann bendir á að forsætisráðherra hafi forðast umræðu um verðtrygginguna á Alþingi eins og heitan eldinn. Það sé nákvæmlega ekki neitt sem kalli á þessa hugmynd. „Nærri lagi væri að leggja tillöguna fram yfirhöfuð og svo gæti þjóðin kosið um hana ef hún sjálf kærði sig um það – en það á þá að vera að kröfu þjóðarinnar, ekki forsætisráðherra.“