Frumbyggjar komu mun fyrr en áður var talið

20.07.2017 - 02:04
Mynd með færslu
 Mynd: NASA  -  Wikimedia Commons
Fornleifafræðingar í Ástralíu uppgötvuðu nýverið vísbendingar um að ástralskir frumbyggjar hafi komið mun fyrr til álfunnar er áður var talið. Þetta segir í frétt breska ríkisútvarpsins, BBC. Í norðanverðri álfunni fundust fornmunir sem taldir eru sýna að frumbyggjar hafi verið þar á ferð fyrir 65.000 árum eða 18.000 árum fyrr en áður var talið.

Rannsakendur telja að þeir hafi fundið elstu steinaxir í heimi í uppgreftrinum ásamt ævafornum litum sem þeir telja að hafi verið notaðir í listræna iðju. Niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu Nature.

Talið er að menningarsaga ástralskra frumbyggja nái yfir lengsta samfellda tímabil siðmenningar sem vitað er um. Hinsvegar hefur verið umdeilt um nokkra hríð hvenær þeir fyrst komu til Ástralíu og spanna kenningar frá 47.000 árum til 60.000 ára. Þeir munu hafa komið siglandi frá Suðaustur-Asíu þegar sjávarborð var talsvert lægra.

Sjá frétt BBC hér.

 

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV