Frosti sakar Símann um lögbrot

11.02.2016 - 13:55
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sakar Símann um lögbrot með því að neita að taka við seðlum og mynt.

Morgunblaðið greinir frá því að viðskiptavinir Símans geti ekki lengur greitt reikninga fyrirtækisins í Ármúla með reiðufé. Þess í stað þurfi viðskiptavinir fyrirtækisins að fara í banka, ýmist í bankaútibú eða heimabanka, og greiða reikninga sína þar.

Frosti gerir fréttina að umfjöllunarefni á Facebook síðu sinni í dag. Þar sakar hann fjarskiptafyrirtækið um að brjóta 3. grein laga um gjaldmiðil Íslands, með því að neita að taka við seðlum og mynt. Frosti vísar í umrædda lagagrein í færslunni sinni. „Peningaseðlar þeir, sem Seðlabanki Íslands lætur gera og gefur út, og peningar þeir, sem hann lætur slá og gefur út, skulu vera lögeyrir í allar greiðslur hér á landi með fullu ákvæðisverði.“

Þá sakar Frosti Símann sömuleiðis um að brjóta gegn 5. grein laga um Seðlabanka Íslands með athæfi sínu, þar sem standi: „Seðlar og mynt sem Seðlabankinn gefur út skulu vera lögeyrir til allra greiðslna með fullu ákvæðisverði.“

Þá skrifar þingmaður Framsóknarflokksins að lokum: „Síminn verður að fara að lögum.“

 

Með því að neita að taka við seðlum og mynt sem greiðslu er Síminn að brjóta 3. gr. laga um gjaldmiðil Íslands en þar...

Posted by Frosti Sigurjonsson on 11. febrúar 2016

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV