Fríverslunarsamningur undirritaður

04.02.2016 - 01:34
Trade delegates pose for a photograph after signing the Trans-Pacific Partnership Agreement in Auckland, New Zealand, Thursday, Feb. 4, 2016. Trade ministers from 12 Pacific Rim countries including the United States have ceremonially signed the free-trade
Frá undirritun samningsins.  Mynd: AP  -  SNPA
Fulltrúar 12 ríkja rituðu undir fríverslunarsamning Kyrrahafsríkja, Trans-Pacific Partnership, í Auckland í Nýja Sjálandi í kvöld. Viðskipti samningsríkjanna samsvara um 40 prósentum heildarviðskipta á heimsvísu. Barack Obama segir samninginn veita Bandaríkjunum forskot á önnur efnahagsleg stórveldi, þá sérstaklega Kína.

John Key, forsætisráðherra Nýja Sjálands, stýrði athöfninni í kvöld ásamt Mike Froman, fulltrúa viðskiptaráðuneytis Bandaríkjanna. Auk þeirra eiga Ástralía, Brúnei, Kanada, Chile, Japan, Malasía, Mexíkó, Perú, Singapúr og Víetnam aðild að samningnum. 

Samningslöndin hafa enn tvö ár til þess að fá samninginn samþykktan heima fyrir áður en hann gengur í gildi. Key hvatti þau til þess að gera það sem fyrst, enda eigi samningurinn eftir að auðvelda aðgengi yfir 800 milljóna að vörum og þjónustu þegar hann tekur loks gildi. Hann segir fleiri ríki vera búin að óska eftir aðild að samningnum. Froman segir mikilvægt að samningurinn verði samþykktur sem fyrst. Hann segir samninginn eiga eftir að koma bandarískum verkamönnum, bændum og fyrirtækjum til góða.

Að sögn AFP fréttaveitunnar hefur samningurinn verið gagnrýndur vegna leyndarinnar sem fólgin var í samningaviðræðunum. Samningurinn sé gerður til þess að koma Bandaríkjunum sem best og sé til þess fólginn að ríki missi fullveldi sitt. 

Umdeildur í Bandaríkjunum

Samningurinn er einnig umdeildur í Bandaríkjunum og er talað um að Barack Obama eigi erfitt verk fyrir höndum með að fá hann samþykktan í þinginu. Í yfirlýsingu sinni í kvöld segist hann vonast til þess að það gerist sem fyrst, svo hagkerfið geti byrjað að hagnast á tugmilljarða dala útflutningsmöguleikum. Þá eigi samningurinn eftir að veita bandarískum verkamönnum þá velgengni sem þeir eiga skilið og fyrirtækjum að vinna sigra um allan heim að sögn Obama.  Hann segir samninginn veita Bandaríkjunum forskot á önnur efnahagsleg stórveldi, þá sérstaklega Kína sem er ekki á meðal samningsríkja. 

Líkurnar á því að kosið verði um samninginn á Bandaríkjaþingi á þessu ári verða að teljast litlar. Obama hélt fund með leiðtogum repúblikanaflokksins í öldungadeild í gær. Þar vildi Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana, ekki lofa því að kosið verði um hann áður en nýr forseti verður kosinn í Bandaríkjunum í nóvember. Verði samningurinn samþykktur þýði það stórsigur Obama í utanríkismálum, sem repúblikönum hugnast ekki rétt fyrir kosningar.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV