Fríhöfnin kærð fyrir ólöglega áfengissölu

03.03.2016 - 19:40
Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli hefur verið kærð til lögreglustjórans á Suðurnesjum fyrir brot á áfengislögum. Engin lagaheimild sé til að selja áfengi í fríhöfninni. Það sé annaðhvort slys af hálfu löggjafans eða meðvituð ákvörðun um að banna áfengissölu í fríhöfninni.

Kærendur segjast í eitt og hálft ár hafa leitað eftir upplýsingum innan stjórnkerfisins á því á hvaða lagaheimild áfengissala í Fríhöfninni byggði en ekki fengið nein svör. Því hafi málið verið kært.
„Þegar maður skoðar þau lög sem gilda um áfengissölu, þá hefur ÁTVR einkarétt til smásölu á áfengi, það virðist hvergi minnst á það að Fríhöfnin geti selt áfengi. Það voru áður heimildir í eldri áfengislögum og eldri tollalögum en þessar sérstöku heimildir hafa verið felldar í burtu. Þannig að eftir stendur eftir því sem best verður séð, samkvæmt lögum þá getur ÁTVR eitt selt áfengi í smásölu á Íslandi,“ segir Jónas Fr. Jónsson, lögmaður kærenda.

Hann segist enga skýringu hafa á því af hverju heimildir Fríhafnarinnar hafi verið fjarlægðar úr lögunum.

„Ef þetta er ekki slys þá verðum við að álykta sem svo að löggjafinn hafi beinlínis ákveðið að fella burtu sérstök heimildarákvæði fyrir Fríhöfnina.“

Fjármálaráðherra heimilaði hins vegar sölu áfengis í tollfrjálsum verslunum með reglugerð árið 2006.

Jónas segir að reglugerðir verði að hafa lagastoð og þangað til bent verði á hana þá hafi enginn séð hana.

Þrátt fyrir að rúmir sex mánuðir séu frá því að kæran var send lögreglustjóranum á Suðurnesjum, höfðu stjórnendur Fríhafnarinnar og Isavia, sem á Fríhöfnina, ekki heyrt af henni, fyrr en fréttastofa hafði samband við þá í dag.

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði í samtali við fréttastofu að málið væri til meðferðar hjá rannsóknardeild, en hefði goldið þess að önnur mál hefðu verið sett í meiri forgang. Hann hefði engu að síður gengið eftir því nýlega að rannsókn hæfist í málinu.

Fréttastofa RÚV fékk þau skilaboð frá lögfræðingum Isavia í dag að áfengissalan sé leyfð í Fríhöfninni með sérstöku leyfi frá Tollstjóranum.
„Leyfi tollstjórans þarf að byggja á lögum, þannig að það verður fróðlegt að sjá lagaheimildina sem verður vísað til,“ segir Jónas Fr. Jónsson

 

>> 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV