Fréttu af takmörkunum skipsins í fjölmiðlum

12.09.2017 - 17:16
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Ferjan Röst sem á að leysa Herjólf af hólmi þegar hann fer í slipp síðar í mánuðinum hefur ekki heimild til að sigla í Þorlákshöfn ef ekki reynist unnt að lenda í Landeyjahöfn. Þetta gengur þvert á það sem stefnt var að þegar samningar hófust um leigu á skipinu.

Bæjarráð Vestmannaeyja fjallaði um málið á fundi sínum í hádeginu. Bæjarráðsmenn segja að þetta þýði mjög skert samgönguöryggi þegar Herjólfur fer í slipp. Skipið sem var fengið í hans stað rúmar færri bíla og farþega en Herjólfur og því dregur úr flutningsgetu dag hvern ef ferðum er ekki fjölgað umfram það sem annars væri. Þá segja bæjarráðsfulltrúar það lýsandi fyrir stöðu Vestmannaeyjabæjar að kjörnir fulltrúar hafi ekkert frétt af takmörkunum skipsins fyrr en þeir lásu um það í fjölmiðlum. 

Í bókun bæjarráðs segir að þetta sýni enn og aftur hversu mikilvægt það sé að heimamenn séu ekki bara áhorfendur heldur komi að ákvörðunum um siglingar milli lands og Eyja.

Í frétt á vef Eyjafrétta segir að skipið hafi verið með haffærniskírteini miðað við hafsvæði B, sem dugar til siglinga milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja, þegar viðræður um leigu hófust. Síðar hafi komið í ljós að það var gefið út fyrir mistök og fellt úr gildi. Í staðinn má skipið sigla á takmarkaðra hafsvæði og dugar til siglinga milli Vestmannaeyja og Landeyjarhafnar. Þegar þetta kom í ljós voru ekki önnur skip í boði til að annast siglingar milli lands og Eyja. Því var ákveðið að leigja skipið meðan Herjólfur er í slipp.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV