Fresta uppsögnum á Blönduósi um viku

18.05.2017 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson  -  RUV.IS
Sjúkraflutningamenn við Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi hafa frestað gildistöku uppsagna um eina viku. Boðað hefur verið til samningafundar í dag. Um 90 sjúkraflutningamenn um allt land eru á sömu kjörum og félagar þeirra á Blönduósi.

Það voru sex sjúkraflutningamenn í hlutastarfi hjá HSN á Blönduósi sem sögðu upp störfum og átti uppsögnin að taka gildi á morgun.

Samþykktu að fresta uppsögnum um eina viku

Valdimar Leó Friðriksson, framkvæmdastjóri Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, segir þá nú hafa ákveðið að fresta aðgerðum að ósk yfirmanna hjá HSN. „Yfirmenn óskuðu fast eftir því, enda ekki um neina aðra að hlaupa í þessi störf. Þannig að þeir hafa samþykkt að fresta uppsögnum um eina viku."

Vonast til að viðræður þokist í rétta átt í dag

Samninganefnd ríkisins hefur boðað til samningafundar í dag, en Valdimar segist ekki vita við hverju er að búast þar. „Nei ég í raun veit það ekki. Þessu átti náttúrulega öllu að vera lokið fyrir áramót, en ég er bjartsýnn á að það þokist eitthvað í rétta átt í dag."

30% lakari kjör en hjá slökkviliðum

Valdimar segir að um 90 sjúkraflutningamenn séu í hlutastörfum hjá heilbrigðisstofnunum og því á sömu kjörum og sexmenningarnir á Blönduósi. Kjör þeirra séu um 30 prósentum lakari en hjá hlutastarfandi sjúkraflutningamönnum hjá slökkviliðum. En hann veit ekki af hverju sjúkraflutningamenn á Blönduósi velja að segja upp, en ekki aðrir í sömu stöðu. „Þeir hafa náttúrulega lengi sótt að fá leiðréttingu á launum og ég held að það sé meira tilviljun að þeir séu fyrstir. En því miður þá er hætta á að aðrir komi á eftir."

Uppfært kl. 13:30

Skora á stjórnvöld að ljúka við gerð kjarasamnings

Byggðarráð Blönduósbæjar sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem ráðið lýsir yfir miklum áhyggjum af þeirri „alvarlegu stöðu sem komin er upp í sjúkraflutningsmálum í héraðinu,“ eins og segir orðrétt. Byggðarráð skorar á Velferðarraðuneytið og Fjármálaráðuneytið að ljúka við gerð kjarasamning við hlutastarfandi sjúkraflutningamenn í samræmi við þá skuldbindingu og ábyrgð sem í starfinu felst. „Jafnframt er skorað á framkvæmdastjórn HSN að samræma launakjör hlutastarfandi sjúkraflutningsmanna innan starfssvæðis HSN en sjúkraflutningsmenn á Blönduósi telja sig ekki hafa setið við sama borð og aðrir sjúkraflutningsmenn innan HSN.“ 

Leiðrétta þurfi misræmi í launum tafarlaust

Byggðarráðið bendir á að hlutastarfandi sjúkraflutningamenn á HSN eru 23 talsins. Þeir eru á Blönduósi, Dalvík, Raufarhöfn og Þórshöfn og hluti sjúkraflutningsmanna á Húsavík. „Hluti af kröfum hlutastarfandi sjúkraflutningsmanna á Blönduósi er að þeir telji að ósamræmi sé á milli launa hlutastarfandi sjúkraflutningsmanna innan starfssvæðis HSN. Byggðarráð Blönduósbæjar telur það óásættanlegt, ef rétt reynist, af hálfu HSN að mismuna starfsmönnum sínum með þessum hætti og skorar á framkvæmdastjórn HSN að leiðrétta þetta misræmi án tafar,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Byggðarráðs Blönduóssbæjar.