Frelsishetju sýndur sómi

17.08.2010 - 20:41
Mynd með færslu
Framkvæmdir eru hafnar við nýja sýningu um Jón Sigurðsson forseta. Sýningin verður opnuð almenningi á 200 ára afmæli frelsishetjunnar, 17. júní á næsta ári. Jón Sigurðsson, forseti, fæddist 17. júní 1811 á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Á næsta ári verða því 200 ár liðin frá fæðingu hans. Af því tilefni verður mikið um að vera í ár og á næsta ári. Sýningahald verður áberandi sem og útgáfa á bókum, frímerkjum og minjagripum. Þá verður og mikið húllumhæ á 200 ára afmælisdaginn sjálfan, bæði í Vesturheimi en þó aðallega á fæðingarstaðnum sjálfum, Hrafnseyri.

Í 30 ár hefur þar verið sýning, þar sem saga Jóns er rakin í máli og myndum. Haldin var hugmyndasamkeppni um nýja sýningu í vor þar sem tillaga frá arkítektastofunni Basalti bar sigur úr býtum. Nú er unnið að nánari útfærslu hugmyndarinnar. Húsinu að Hrafnseyri verður breytt nokkuð, sérstaklega að innan, en einnig að utan þar sem aðkoma bíla, fatlaðra og annarra mun batna til muna. Ekki verður hróflað við kapellunni, kirkjunni né burstabænum sem þar eru. Á nýrri sýningu verður meiri rækt lögð við að kynna sögu Jóns fyrir erlendum ferðamönnum og margmiðlun notuð til að miðla efninu til gesta. Staðarhaldarinn telur þessa endurnýjun nauðsynlega.