Franski spítalinn tekinn í notkun

Innlent
 · 
Austurland
 · 
Fjarðabyggð
 · 
Menningarefni
 · 
Sveitarfélög
Mynd með færslu

Franski spítalinn tekinn í notkun

Innlent
 · 
Austurland
 · 
Fjarðabyggð
 · 
Menningarefni
 · 
Sveitarfélög
Einungis var hægt að nýta 20 prósent af timbri úr gamla franska spítalanum á Fáskrúðsfirði. Hann hefur nú verið endurgerður sem hótel og safn um örlög þúsunda franskra sjómanna á Íslandsmiðum.

Á Fáskrúðsfirði heldur hópur fólks niður hlíðina þangað sem ófáir Frakkar hafa vitjað langafa eða frænda sem fórust við veiðar á Íslandsmiðum. Frakkar voru umsvifamiklir í þorskveiðum við strendur landsins á 19. öld og byggðu spítala á Fáskrúðsfirði til að hjúkra sjómönnum og heimamönnum einnig. Minjavernd flutti spítalann heim í þorpið og endurgerði hann og fleiri hús. Í undirgöngunum má upplifa aðstæður sjómanna.

Annette Schaafhirt, safnstjóri á Fáskrúðsfirði, segir að 20 til 26 menn hafi verið í einnu skútu, og að tveir sjómenn hafi deilt einni koju. „Þeir voru að vinna allt að 20 klukkutíma á dag. Í kringum 4-5000 sjómenn dóu við Íslandsstrendur og þess vegna finnast í Pampoul í kirkugarði margar grafir þar sem stendur bara „Týndist við Íslandsstönd" eða „Dó við Íslandsströnd".“

Safnið mun eflaust laða að ferðamenn en í húsinu er rekið hótel með veitingastað og leyfi hefur fengist til að reisa annað hótelhús með fleiri herbergjum. Bryggja var byggð út í sjó og í skoðun er að kaupa seglskútu til staðarins. Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, segir þetta góðar fréttir.

„Þetta gefur mikil tækifæri til að búa til ýmsa afþreyingarþjónustu og til þess að þjóna gestum sem hér koma. Einnig getur þetta gefið tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila hér í Fjarðabyggð til þess að vinna saman og vonandi fá þá fólk til að dvelja lengur með því þá að fara hér á milli staða og njóta þess sem hér er í boði.“