Framferði Rússa getur spillt samvinnu

19.03.2014 - 17:48
Mynd með færslu
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir að þjóðir á Norðurslóðum hafi til þessa reynt að halda alþjóðadeilum utan við starfsemi Norðurskautsráðsins. Málefni Úkraínu hafi til þessa ekki haft áhrif á samstarfið, en „engum dylst að framferði einstakra ríkja geti spillt þessari góðu vinnu.“

Þetta skrifar Gunnar Bragi í færslu á Facebook nú á sjötta tímanum, í tilefni frétta af því að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, hafi ekki viljað ræða ástandið í Úkraínu á ráðstefnu um norðurslóðir sem nú stendur yfir í Noregi. Aðstoðarráðherra í norska utanríkisráðuneytinu gagnrýndi þar framferði Rússa harðlega, en Ólafur Ragnar sagði það óviðeigandi að nota ráðstefnu sem þessa til að fordæma eitt af stóru ríkjunum á ráðstefnunni. 

Gunnar Bragi segir ljóst að áframhaldandi góð samvinna norðurskautsríkjanna skipti miklu máli eins lengi og mögulegt sé, því fátt ógni öryggi og lífríki norðurslóða meira en ófriður og, eða óeining. „Þessar þjóðir hafa því leitast við að halda alþjóðadeilum utan ráðsins. Síðast í dag funduðu embættismenn þjóða Norðurskautsráðsins hérlendis eins og komið hefur fram á facebook hjá mér. Málefni Úkraínu hafa fram til þessa ekki haft áhrif á samstarf þessara þjóða á vettvangi norðurslóða en engum dylst að framferði einstakra ríkja getur spillt þessari góðu vinnu. Íslendingar hafa ætíð lagt áherslu á að ríkin átta virði öryggi og frið á norðurslóðum,“ segir í Facebook færslu Gunnars Braga. Við þessa færslu er síðan hengd ræða Ólafs Ragnars Grímssonar á ráðstefnunni.