Frábær seinni hálfleikur dugði hjá Gróttu

02.03.2016 - 20:19
Grótta vann mikilvægan sigur á ÍBV í Olís-deild kvenna í handbolta í mjög svo kaflaskiptum leik í kvöld, 27 - 21. ÍBV lék mjög vel í fyrri hálfleik og leiddi að honum loknum með fjórum mörkum; 8-12 en allt annað var að sjá til liðs Gróttu í síðari hálfleik.

Í síðari hálfleik gengu heimakonur í Gróttu á lagið og náðu að jafna leikinn strax í upphafi síðari hálfleiks í stöðunni 14-14. Leikurinn var jafn og spennandi þar til á lokamínútunum að Grótta náði að hrista Eyjakonur af sér og tryggja sér sigurinn.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir átti skínandi leik hjá Gróttu og skoraði 7 mörk. Unnur Ómarsdóttir var með 5 mörk. Hjá ÍBV var Vera Lopes atkvæðamest með 7 mörk og Ester Óskarsdóttir kom þar á eftir með 6 mörk.

Grótta er á toppi Olís-deildarinnar með 37 stig en ÍBV er í þriðja sæti með 32 stig.

Staðan í Olís-deild kvenna

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður