Fóru ekki á Kvíabryggju vegna Kaupþingsmanna

11.01.2016 - 18:56
Kvíabryggja
 Mynd: Wikimedia Commons
Ísold Uggadóttir, kvikmyndagerðarmaður, sem var í tökuliði bandaríska kvikmyndagerðarmannsins Michael Moore, sem heimsótti fangelsið á Kvíabryggju síðastliðið vor, vísar því á bug að tilgangur heimsóknarinnar hafi verið að ná myndum af Kaupþingsmönnum.

Sigurður Einarsson, Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson, sem afplána þunga fangelsisdóma á Kvíabryggju vegna Al-Thani málsins svokallaða, gagnrýna Pál Winkel fangelsismálastjóra harðlega fyrir að hafa heimilað tökuliði Moore að heimsækja Kvíabryggju í vor og segja að með því hafi verið brotið gegn reglugerð um fullnustu refsinga. Þá hafi aðgengi tökuliðsins að fangelsinu verið án fordæma.

Þremenningarnir kvörtuðu til umboðsmanns Alþingis vegna málsins, en þar eru sömuleiðis gerðar athugasemdir við ummæli fangelsismálaforstjórans í fjölmiðlum, sem mennirnir telja að hafi vegið að sér. Umboðsmaður hefur tekið erindið til skoðunar og gefið forstjóra Fangelsismálastofnunar frest til 1. febrúar til að svara þeim ávirðingum sem á hann eru bornar. Páll Winkel hefur ekki viljað tjá sig um málið, í samtali við fréttastofu RÚV.

Fangelsið umfjöllunarefnið, ekki Kaupþingsmennirnir

Í kvörtuninni til umboðsmanns fullyrða þremenningarnir að tökulið Michael Moore hafi varið heilum degi í fangelsinu gagngert til að ná af þeim myndum og þá hafi aðrir fangar á Kvíabryggju verið spurðir í viðtölum út í veru Kaupþingsmannanna í fangelsinu. 

Ísold segir tilgang heimsóknarinnar ekki hafa verið að ná myndum af Kaupþingsmönnunum. Hún segir að umfjöllunarefnið hafi verið fangelsið sjálft, en að framleiðendur myndarinnar hafi óskað eftir viðtölum við Sigurð Einarsson, sem hafi ekki viljað verða við beiðninni. Hún segist ekki geta svarað því hvort aðrir fangar hafi verið spurðir út í málefni þremenninganna. Þá hafi starfsmaður fangelsins fylgt tökuliðinu hvert fótmál á meðan dvöl þeirra stóð í fangelsinu.