Foreldrar krefjast rannsóknar á dekkjakurli

18.02.2016 - 19:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Allt að hundrað sinnum meira er af þrávirkum efnum sem geta valdið krabbameini í gúmmíkurli á íslenskum fótboltavöllum, en leyfilegt er í leikföngum. Forsvarsmenn tólf hundruð foreldra í Reykjavík og samtökin Heimili og skóli hafa krafist rannsóknar á kurlinu.

Víða um land eru gervigrasvellir með gúmmíkurli sem sett er á þá til þess að mýkja þá. Kurlið er búið til úr dekkjum, oft notuðum. Samkvæmt danskri skýrslu fara 100 til 120 tonn af kurlinu á völl í fullri stærð. Reykjavíkurborg á níu gervigrasvelli og 15 sparkvelli. Á heimasíðu borgarinnar segir að allt frá árinu 2010 hafi borgin ekki sett svart SBR gúmmíkurl á vellina í ljósi þess að það gæti hugsanlega verið heilsuspillandi. Kurlið er hins vegar enn á fjölmörgum völlum. Nú hafa talsmenn hóps 1.200 foreldra í Reykjavík og samtökin Heimili og skóli krafist þess að málið verði rannsakað.

„Í dag óskuðum við eftir því við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur að þeir fari yfir með hvaða hætti Reykjavíkurborg hefur sett dekkjakurl á velli í Reykjavík frá 2010 því það hefur komið í ljós að frá 2010 hefur verið flutt inn dekkjakurl sem er með krabbameinsvaldandi efnum umfram það sem heimilt er í dekkjum. Og við óttumst að það gæti alveg eins hafa verið gert í Reykjavík og við viljum fá niðurstöðu í það mál,“ segir Freyr Hermannsson, talsmaður foreldranna.

REACH reglugerðin, sem hefur það meginmarkmið að vernda heilsu manna og umhverfi, tók gildi á Íslandi árið 2008. Samkvæmt henni mega leikföng ekki innihalda meira en hálft milligramm á kíló af þrávirka efninu PAH, sem getur valdið krabbameini. Íþróttavörur mega ekki innihalda meira en eitt mg/kg af efninu og leyfilegt innihald í dekkjum er 10 mg/kg. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun hefur dekkjakurlið á íslenskum sparkvöllum hins vegar innihaldið allt frá 13 og upp í 55 mg/kg.

„Mjög óábyrgt“

Freyr segir að foreldrarnir óttist að efnin geti verið skaðleg.

„Algjörlega. Krabbamein, ófrjósemi og stökkbreytingar í genum. Þetta er ekki eitthvað sem foreldrar taka létt,“ segir hann.

Í borgarráði hefur verið kynnt áætlun um endurnýjun vallanna í Reykjavík. Samkvæmt henni verður skipt um gras og gúmmí á þremur völlum á næstu tveimur árum. Áætlaður kostnaður við það er um 200 milljónir króna.

Á vef Reykjavíkurborgar kemur hins vegar fram að upplýsinga hafi verið aflað um kurlið. Á grundvelli þeirra upplýsinga sé ekki talin nauðsyn á að skipta því út. Engar óyggjandi sannanir liggi fyrir um það hvort gúmmíkurlið sé hættulegt eða ekki.

„Já borgin hefur lýst því yfir 2010 að þetta væri ekki hættulegt. Það er mjög óábyrgt. Það er ekki búið að sýna fram á að þetta sé ekki skaðlegt eða sé skaðlegt,“ segir Freyr.